Viðskipti innlent

Hæstiréttur: Vilhjálmur fái Glitnisgögn

Hæstiréttur hefur snúið við úrskurði héraðsdóms þar sem Vilhjálmi Bjarnasyni framkvæmdastjóra Samtaka fjárfesta var meinaður aðgangur að gögnum um fjölda hlutabréfa í Glitni sem voru í eigu bankans fyrir fall hans. Hæstiréttur segir að Glitni beri að afhenda Vilhjálmi þessi gögn.

Í umfjöllun Hæstaréttar segir m.a. að Vilhjálmur telur sig eiga lögvarða hagsmuni af því að fá þau gögn, sem hann krefst. Vilhjálmur telur að hann hefði sem hluthafi, samkvæmt lögum, átt rétt til upplýsinga um þau atriði sem kröfugerð hans tekur til og verði þeirri lagagrein beitt um þá aðstöðu, sem nú sé fyrir hendi. ... Fallist er á að tjón Vilhjálms vegna þess að hlutafé hans í Glitni fór forgörðum sé einstaklingsbundið tjón hans sjálfs og að hann eigi lögvarða hagsmuni í málinu og breytir engu hvort aðrir hluthafar kunni einnig að eiga sambærilegar kröfur á hendur fyrri stjórnendum Glitnis.

Í samtali við RUV í gærdag sagði Vilhjálmur m.a. að í aðdraganda hrunsins var bankinn að selja vildarviðskiptavinum og fór yfir 10% í útgefnum hlutabréfum í þessum hlutum. Um það snýst málið, að sýna fram á að bankinn hafi stundað markaðsmisnotkun úr eigin sjóðum, brotið hlutafélagalög og eigin samþykktir.

Þá telur Vilhjálmur að um tímamótaúrskurð sé að ræða hjá Hæstarétti en næstu skref hans í málinu sé að skoða umrædd gögn og ákveða hvort ástæða sé til málshöfðunar á grundvelli þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×