Viðskipti innlent

Íslensk verðbréf hf. skiluðu 170 milljóna hagnaði í fyrra

Hagnaður af rekstri Íslenskra verðbréfa hf. (ÍV) í fyrra  nam 170 milljónum kr. Niðurstaðan er í samræmi við áætlanir félagsins og í takt við afkomu þess árið 2009, þegar hagnaður nam 166 milljónum kr.

Í tilkynningu segir að eiginfjárhlutfall félagsins var í árslok 26,7% en hlutfallið má ekki vera lægra en 8% samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

Vöxtur var á öllum sviðum eignastýringar, hvort sem horft er til einstaklinga eða fagfjárfesta. Alls stýrði félagið 116 milljörðum króna fyrir viðskiptavini sína í árslok 2010 samanborið við 95 milljarða króna í árslok 2009.

Sævar Helgason, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, er að vonum ánægður með árangurinn. „Árangurinn er í takt við áætlanir og ljóst að sérstaða félagsins hefur aldrei verið eins mikilvæg og í kjölfar hrunsins. Hún er jafnframt lykillinn að góðum árangri hvort sem horft er á árangur í eignastýringu eða afkomu félagsins,“ segir Sævar í tilkynningunni.

Sérstaðan felst í því að sinna einungis eignastýringu og miðlun, ólíkt samkeppnisaðilum sem margir hverjir stunda eigin fjárfestingar og fyrirtækjaráðgjöf samhliða eignastýringu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×