Viðskipti innlent

Opnar upplýsingaveitu um sjávarútvegsmál

Íslandsbanki  hefur opnað nýja alþjóðlega upplýsingaveitu, Sjávarútvegsmælaborðið, um sjávarútvegsmál. Þar er hægt að fylgjast með sjávarútvegsmarkaðnum víðsvegar um heiminn en þó er lögð sérstök áhersla á Bandaríkin og Ísland.

Í tilkynningu segir að á vefnum megi  meðal annars finna upplýsingar um veiðar, neyslu og hlutabréfaverð sjávarútvegsfyrirtækja  eftir löndum. Að auki er þar að finna vísitölur fyrir þrjá markaði; Ameríku, Evrópu og Asíu, Ástralíu og Afríku. Inni í hverri vísitölu eru 15 stærstu sjávarútvegsfyrirtæki á markaði og er vægi hvers fyrirtækis í vísitölunni metið eftir stærð þess. Vísitölurnar eru uppfærðar daglega og gefa glögga mynd af því hvernig markaðir eru þróast, t.a.m. hefur vísitalan fyrir Evrópu vaxið meira en hinar tvær að undanförnu.

Sjávarútvegsmælaborðið er unnið í samvinnu við gagnatorgið DataMarket sem rekur markaðssvæði fyrir tölfræði- og töluleg gögn. Upplýsingaveitan er aðgengileg á vefsíðu Íslandsbank: https://www.islandsbanki.is/seafood-dashboard/

Í febrúar síðastliðnum opnaði Íslandsbanki sambærilega upplýsingaveitu um alþjóðlegan jarðhitamarkað. Þar er hægt að fylgjast með jarðhitamarkaðnum víðsvegar um heiminn og er þar einnig lög áhersla á Bandaríkin og Ísland. Á mælaborðinu má meðal annars finna upplýsingar um framleiðslugetu rafmagns úr jarðhita og áætlaða framleiðslugetu jarðhita eftir löndum. Að auki eru þar upplýsingar um olíuverð og hlutabréfaverð jarðhitafyrirtækja víðs vegar um heiminn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×