Viðskipti innlent

Enn ríkir mikil svartsýni meðal stjórnenda fyrirtækja

Enn ríkir mikil svartsýni á meðal íslenskra stjórnenda á ástandið í efnahagslífinu og hefur afstaða þeirra til þess lítið batnað frá bankahruni.

Þetta má sjá úr niðurstöðum ársfjórðungslegrar könnunar sem Capacent Gallup gerir á meðal stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins um aðstæður í efnahagslífinu, en hún sýnir að yfirgnæfandi meirihluti þeirra telur aðstæður slæmar.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þannig telja tæp 80% stjórnenda aðstæður í efnahagslífinu slæmar, tæp 19% telja þær hvorki góðar né slæmar og einungis 2% að þær séu góðar. Þó er þetta örlítið skárri niðurstaða en fékkst úr síðustu könnun sem var gerð í desember en þá töldu 84% aðstæður slæmar, 15% aðstæður hvorki góðar né slæmar og nánast enginn að þær væru góðar.

Könnunin var gerð á tímabilinu 14. febrúar til 13. mars 2011 og voru niðurstöður hennar birtar á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins í gær.

Um 22% stjórnenda telja að aðstæður verði betri eftir 6 mánuði og eru það hlutfallslega færri en í síðustu könnun þegar um 25% þeirra sá fram á betri tíð eftir 6 mánuði. Þó hefur fækkað í hópi þeirra sem telja að ástandið eigi eftir að versna á tímabilinu frá síðustu könnun, en þeir eru 24% nú á móti 30% síðast.

Fjölgar því hópi þeirra sem telja að ástandið verði óbreytt eftir 6 mánuði frá síðustu könnun og fer hlutfallið úr 45% í 54%. Þessar niðurstöður koma ekki á óvart enda er raunin sú að ástandið hefur lítið breyst að mörgu leyti undanfarna þrjá mánuði. Má hér nefna að enn er ekki komin niðurstaða í hinu umdeilda Icesave-máli, og er málið þar með enn eitt það heitasta á kaffistofum landsins í dag, enn ríkir töluverð spenna hjá stjórnvöldum og í raun má segja að efnahagslífið er vart farið að rétta úr kútnum eftir verulegt samdráttarskeið í kjölfar bankahrunsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×