Viðskipti innlent

Ætla að selja Norðurlandabúum 150 Raf-Rovera

Valur Grettisson skrifar
Raf-Roverinn E-Range.
Raf-Roverinn E-Range.
Fyrirtækið Northern Lights Energy (NLE) hefur gert samning við breskt framleiðslufyrirtæki um sölu á 150 rafbílum af gerðinni Range Rover, eða E-Range. Fyrirtækið gerði samning við Liberty Electric Cars, sem er staðsett í Oxford í Bretlandi. Samningurinn hljóðar upp á 24 milljónir punda eða um fjóra og hálfan milljarða króna.

„Flestir bílarnir verða seldir á Norðurlöndunum," segir Sighvatur Lárusson, einn af eigendum og stofnandi NLE, um samninginn. Aðspurður segist hann ekki vita hversu margir bílar verða fluttir hingað, ef einhverjir.

Ef þingsályktunartillaga iðnaðarráðherra um endurgreiðslu á virðisaukaskatti bílanna, verður að veruleika, þá mun Raf-Roverinn kosta á bilinu 25 til 30 milljónir íslenskra króna.

Að sama skapi mun kaupandinn spara gríðarlega háum fjárhæðum í eldsneytiskostnað, í það minnsta hér á landi.

Sighvatur segir bílinn lúxuskerru og gefi bensínbílnum ekkert eftir. Þannig verður hægt að aka 320 kílómetra á hleðslunni auk þess sem bíllinn verður mjög kraftmikill. Sighvatur bendir á að í Danmörku kostar bensínútgáfan af bílnum allt að 60 milljónir króna.

Bílarnir 150 verða fluttir til Norðurlandanna á næstu fjórum árum.

„Það hafa verið að seljast 50 bílar í Danmörku og Noregi á ári hverju," segir Sighvatur en þeir ætla einnig að freistast til þess að selja Færeyingum Raf-Roverana.

Sighvatur er ánægður með þá þróun sem hefur átt sér stað í rafbílavæðingu á Íslandi. Hann vill þó að það verði gefið enn meira í, ef svo má að orði komast, en í Noregi hafa stjórnvöld meðal annars tekið ákvörðun um að 200 þúsund rafbílar verði á götum Noregs árið 2020.

Hann vill sjá slíka skuldbindingu hjá íslenskum stjórnvöldum, en er þó sáttur við þau skref sem þegar hafa verið tekin, og vilyrði eru um að taka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×