Viðskipti innlent

Héraðsdómur hafnaði 227 milljón króna kröfu Reykjanesbæjar

Reykjanesbær.
Reykjanesbær.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu Reykjanesbæjar um að fá 227 milljónir króna endurgreiddar sem töpuðust hjá Landsvaka í bankahruninu. Það var Landsbankinn, sem er hinn stefndi í málinu, sem sá um eignastýringu fyrir Reykjanesbæ en alls sá bankinn um að ráðstafa 600 milljónum króna fyrir bæjarfélagið.

Fjármálastjóri Reykjanesbæjar sendi tölvupóst til Landsbankans þann 30. september 2008 þar sem sagði: „Í framhaldi af atburðum síðustu daga hér heima og erlendis, þá viljum við losa fjármagnið okkar úr fastri eignastýringu og hafa það lausara fyrir okkur. Hvernig gerum við slíkt?"

Þá hringdi starfsmaður bankans beint í fjármálastjórann en þá var fjármagnið ekki leyst út. Það var svo 6. október sama ár sem fjármálastjórinn sendi annan póst þar sem hann vildi að fjármagnið yrði leyst út úr peningamarkaðssjóðnum og lagt inn á ákveðinn reikning. Þá aftur á móti var lokað fyrir fyrir viðskipti með hlutdeildarskírteini í öllum peningamarkaðssjóðum Landsvaka í því skyni að tryggja hagsmuni og jafnræði hlutdeildarskírteinishafa.

Að lokum var hlutdeildarskírteinishöfum greiddar þær fjárhæðir sem þeir áttu inni í sjóðunum, þó með afföllum. Þannig tapaði Reykjanesbær 187 milljónum á sjóðnum. Þeir kröfðust í kjölfarið endurgreiðslu upphæðarinnar með dráttarvöxtum, eða tæplega 230 milljónir króna.

Í niðurstöðu dómsins er ekki fallist á þau rök Reykjanesbæjar að í tölvupósti fjármálastjóra hans frá 30. september 2008 til Landsbankans hafi falist fyrirmæli um innlausn á fjármunum Reykjanesbæjar. Þykir orðalag tölvupóstsins, endurrit símtala, framburður fjármálastjórans fyrir dómi og síðari samskipti fjármálastjórans við starfsmann bankans taka af öll tvímæli í þá veru.

Kröfu Reykjanesbæjar gegn Landsbankanum var því hafnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×