Viðskipti innlent

Greiðslur til kröfuhafa hefjast í lok árs

Greiðslur til kröfuhafa Glitnis geta væntanlega hafist í desember á þessu ári. Verðmæti eignasafnsins nam 814 milljörðum um síðustu áramót en samtals nema kröfur í búið 3600 milljörðum. Verðmætið er þó háð mikillri óvissu.

Þetta kom fram á upplýsingafundi skilanefndar og slitastjórnar Glitnis sem fram fór í dag. Verðmæti eignanna er meira en öll áætluð útgjöld hins opinbera 2010 og er að meirihluta í erlendri mynt.

„Þessar erlendu myntir geymum við erlendis nú þegar þannig að þær valdi sem minnstri röskun hér á Íslandi," segir Kristján Óskarsson, framkvæmdastjóri Glitnis.

Það þýðir að þegar til útgreiðslu kemur munu þessar myntir ekki hafa áhrif á íslenskt hagkerfi og gengi krónunnar. Sala á stærstu íslensku eigninni, Íslandsbanka, hefur þó umtalsverð áhrif á gjaldeyrisjafnvægi Glitnis og þar með verðmæti eignasafnsins.

Steinunn Guðbjartsdóttir formaður slitastjórnar Glitnis. Mynd/ Sigurjón Ólason.
Áætlað er að hefja útgreiðslu á handbæru fé til kröfuhafa í lok þessa árs.

„Það byggist þó á því að við höfum fengið endanlega niðurstöðu um það hverjir njóta forgangsréttar við slitameðferð Glitnis og eins að við höfum náð endanlegri niðurstöðu um 60-75 prósent krafna í bú Glitnis," sagði Steinunn Guðbjartsdóttir formaður slitastjórnar Glitnis eftir fundinn í dag.

Hún segir að í næstu viku sé að vænta úrskurðar Héraðsdóms um hvort að svokölluð heildsölulán bankans njóti forgangsréttar eða ekki og þeir kröfuhafar fái fulla greiðslu á kröfum sínum.

„Það er okkar skoðun í Glitni að þessar kröfur séu ekki þess eðlis að þær njóti forgangs og við teljum að eðli þessara gerninga sé þannig að þar sé mun frekar um lán að ræða en innistæðu í þeim skilningi sem lögð er í það hugtak."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×