Viðskipti innlent

Hagnaður Skipta 5 milljarðar

Hagnaður Skipta hf. fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 5,1 milljarði króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá Skiptum sem send hefur verið til Kauphallar.

Kristín Guðmundsdóttir, forstjóri Skipta, segir árið 2010 hafa farið ágætlega af stað og fyrstu mánuði ársins hafi ekki orðið vart við mikinn samdrátt hjá dótturfélögum Skipta á Íslandi. „Það breyttist þegar líða tók á vorið og eftirspurnin minnkaði sem setur svip sinn á afkomu Skipta. Hins vegar hefur félagið unnið markvisst að lækkun kostnaðar undanfarin ár sem dregur úr áhrifum tekjulækkunar á afkomuna. Skipti hafa selt stærstan hluta af starfsemi sinni utan Íslands með umtalsverðum söluhagnaði. Verkefnið framundan er að halda áfram að einbeita sér að kjarnastarfsemi félagsins á Íslandi," segir hún.

Aðalfundur félagsins var haldinn í morgun. Í stjórn Skipta voru kjörin þau Skúli Valberg Ólafsson, Pétur J. Eiríksson, Þorvarður Sveinsson, Örn Guðmundsson og Jóhanna Waagfjörð.

Á fundi stjórnar sem haldinn var að loknum aðalfundi var Skúli Valberg kjörinn formaður og Pétur varaformaður.  

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 5,1 milljarði króna samanborið við 8,7 milljarða árið áður. Lækkun EBITDA skýrist meðal annars af því að Skipti seldu Sirius IT auk þess sem varúðarfærsla vegna gerðardóms og sektir höfðu áhrif á afkomu ársins. EBITDA hlutfallið var 15% en var 20% sé ekki tekið tillit til einskiptiskostnaðar.

Bókfært tap Skipta á árinu nam 2,5 milljörðum króna sem skýrist einkum af virðisrýrnun óefnislegra eigna, sem nam 4,9 milljörðum króna. Tap félagsins nam 10,2 milljörðum króna árið áður.

Handbært fé frá rekstri án vaxta og skatta nam 6,0 milljörðum króna, samanborið við 9,1 milljarð árið áður. Eftir vexti og skatta nam handbært fé frá rekstri 3,5 milljörðum króna.

Fjármagnstekjur voru 1,4 milljarðar króna en þar af nam söluhagnaður 5,2 milljörðum króna.

Vaxtaberandi skuldir að frádregnum innistæðum (nettó vaxtaberandi skuldir) námu 44,3 milljörðum um áramót en voru 54,4 milljarðar árið áður. Lækkunin skýrist einkum af sölu eigna.

Eiginfjárhlutfall Skipta hf. er 21 % og eigið fé er 22,3 milljarðar króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×