Viðskipti innlent

Lokka til sín kúnna frá Landsbankanum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Byr opnaði á dögunum útibú í Reykjanesbæ.
Byr opnaði á dögunum útibú í Reykjanesbæ.
Mikill fjöldi Suðurnesjamanna flutti sparifé sitt og bankaviðskipti yfir til Byrs sparisjóðs frá Landsbankanum í gær en ráðning fjögurra þekktra þjónustufulltrúa hjá Sparisjóðnum í Keflavík virðist hafa haft mikið að segja.

Fjármálaeftirlitið tók yfir Byr sparisjóð í apríl 2010 eftir að samningaviðræðum við kröfuhafa lauk án árangurs. Var síðan stofnað nýtt hlutafélag, Byr hf., og innistæður og aðrar skuldbindingar fluttar þangað, en hið nýja hlutafélag fékk viðskiptabankaleyfi.

Eftir að Sparisjóðurinn í Keflavík var sameinaður Landsbankanum fyrir nokkrum vikum sá Byr hf. sér á leik á borði og réð fjóra þjónustufulltrúa hjá Sparisjóðnum yfir í nýtt útibú Byrs í Reykjanesbæ. Í gær birtist svo heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu með starfsmönnunum fjórum þar sem Suðurnesjamenn eru boðnir velkomnir í viðskipti í nýtt útibú Byrs. Margir Suðurnesjamenn fluttu svo sparifé sitt frá Landsbankanum yfir til Byrs í gær og var á tímabili biðröð út úr útibúinu af áhugasömum verðandi viðskiptavinum.

Ljóst er að um er að ræða mjög góða fjárhagslega innspýtingu fyrir hið unga hlutafélag, Byr hf. Trausti Haraldsson, markaðsstjóri Byrs, sagði við fréttastofu í dag að Byr myndi ekki gefa upp fjárhæðir innistæðna sem hefðu bæst við, en sagði móttökurnar við opnun útibúsins mjög góðar. Að sögn Trausta var útibú Byrs í Reykjanesbæ opnað með samþykki Fjármálaeftirlitsins og slitastjórnar Byrs sem fer með 95 prósenta hlut í Byr hf.

Þegar Landsbankinn tók yfir Sparisjóðinn í Keflavík tók hann yfir skuldbindingar vegna innistæðna upp á sextíu milljarða króna, sem er um einn tíundi af heildarinnistæðum í bankanum. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum var langstærstur hluti innistæðna Sparisjóðsins í Keflavík hjá útibúum á Suðurnesjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×