Viðskipti innlent

Breska lögreglan rannsakar Landsbankann

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Landsbanki Íslands.
Landsbanki Íslands.
Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, eða Serious Fraud Office, er byrjuð að rannsaka hrun Landsbankans.

Fréttavefur breska blaðsins Daily Telegraph segir að rannsóknin snúi að starfsemi Landsbankans dagana og vikurnar áður en bankinn hrundi í október 2008. Blaðið segir að rannsakendur vilji greina peningafærslur, tengdar Icesavereikningunum, sem voru gerðar rétt áður en Fjármálaeftirlitið á Íslandi tók bankann yfir.

Daily Telegraph segir að breska efnahagsbrotadeildin vinni rannsóknina í samstarfi við rannsóknaraðila á Íslandi og í Lúxemborg. Þá segir Telegraph að á Íslandi sé verið að rannsaka lánsveitingar frá Landsbankanum sem notaðar voru til þess að fjárfesta í bréfum í bankanum sjálfum og hækka þannig hlutabréfaverðið.

Telegraph bendir á að líkt og í Glitni og Kaupþingi hafi stærstu hlutafjáreigendur í Landsbanka einnig verið stærstu lánþegar hjá bankanum. Stærstu hluthafarnir í bankanum voru Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor sonur hans.

Eins og kunnugt er rannsakar efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar einnig Kaupþing. Fyrir fáeinum vikum voru þrír Íslendingar handteknir vegna þeirrar rannsóknar í Bretlandi, auk Tchenguizbræðranna og tveggja náinna breskra samstarfsmanna þeirra. Þá voru tveir handteknir á Íslandi vegna sömu rannsóknar. Þeim var öllum sleppt samdægurs.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×