Viðskipti innlent

Björgólfur Thor segir rannsókn SFO koma á óvart

Björgólfur Thor Björgólfsson segir rannsókn Serious Fraud Office á starfsemi Landsbankans koma á óvart. Engar skýrslur hafa verið teknar af stjórnendum Landsbankans í tengslum við rannsóknina, en stofnunin rannsakar millifærslur af Icesave-reikningunum rétt fyrir hrun.

Það var breska dagblaðið Daily Telegraph sem greindi fyrst frá því að Serious Fraud Office hefði hafið rannsókn á starfsemi Landsbankans fyrir hrun. Blaðið segir að rannsakendur vilji greina peningafærslur, tengdar Icesavereikningunum, sem voru gerðar rétt áður en Fjármálaeftirlitið á Íslandi tók bankann yfir. Ekki er ljóst hvaða millifærslur blaðið er að vísa í, en ekki er vikið að þessu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Björgólfur Thor Björgólfsson, sem var stærsti hluthafi Landsbankans ásamt föður sínum, segir í nýrri grein á vef sínum að rannsóknin komi á óvart. Breska fjármálaeftirlitið hafi verið í nánu sambandi við stjórnendur Landsbankans sumarið 2008 og þar til bankinn féll um haustið. FSA hefði ekki komist hjá því að koma auga á óeðlilega fjármagnsflutninga, hefðu þeir átt sér stað. Þá hafi athugun slitastjórn Landsbankans og Deloitte í Lundúnum á millifærslum af Icesave-reikningunum ekki leitt neitt misjafnt í ljós.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofunnar er sérstakur saksóknari ekki með neina sjálfstæða rannsókn á Icesave-reikningunum eða millifærslum af þeim. Og eftir því sem fréttastofa kemst næst kemur embættið ekki nema að mjög takmörkuðu leyti að rannsókn Seriuos Fraud Office.

Sérstakur saksóknari er að rannsaka meinta allsherjar markaðsmisnotkun Landsbankans yfir nokkurra ára tímabil sem beinist að lánveitingum til félaga sem keyptu síðan hlutabréf bankans en grunsemdir eru um að þetta hafi verið gert til að hífa upp hlutabréfaverðið.

Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns Þ. Árnasonar, sagði við fréttastofu í dag að SFO hefði engar skýrslur tekið af Sigurjóni í tengslum við sína rannsókn. Sigurjón hefur tvívegis komið í skýrslutöku hjá embætti sérstaks saksóknara, fyrst árið 2009 í tengslum við rannsókn á félaginu Imon og svo í janúar síðastliðnum er hann var hnepptur í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn á meintri markaðsmisnotkun. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur Halldór J. Kristjánsson, sem búsettur er í Kanada, ekki verið boðaður í skýrslutöku heldur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×