Viðskipti innlent

Hagnaður Hampiðjunnar 425 milljónir í fyrra

Hagnaður Hampiðjunnar á síðasta ári var 2,6 milljónir evra eða um 425 milljónir kr. Árið áður var hagnaðurinn ívið meiri eða 3,0 milljónir evra.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að rekstrartekjur samstæðunnar voru 40,1 milljón evra eða um 6,5 milljarðar kr. og jukust um 6,5% á milli ára. 

Heildareignir voru 80,4 milljónir evra í árslok. Skuldir námu 40,2 milljónum evra og lækkuðu um 0,5 milljónir frá fyrra ári. 

Eigið fé nam 40,2 milljónum evra, en af þeirri upphæð eru 6 milljónir evra hlutdeild minnihluta í eigin fé dótturfélaga. Hlutfall eigin fjár, þegar hlutdeild minnihluta er meðtalin með eigin fé, var í árslok 50% af heildareignum samstæðunnar.

„Rekstur netaverkstæðanna gekk vel á Íslandi, Írlandi, Danmörku, Nýja Sjálandi og Kanada. Minniháttar tap var á rekstri netaverkstæðanna í Namibíu og Bandaríkjunum,“ segir Jón Guðmann Pétursson, forstjóri Hampiðjunnar í tilkynningunni.

„Þá tókst vel til með rekstur verksmiðjunnar í Litháen og hefur sameining og útvíkkun á framleiðslu Hampiðjunnar, sem hófst með kaupum á nælonnetahluta Utzon árið 2003, bætt samkeppnishæfni samstæðunnar umtalsvert. Sala á ofurtógi út fyrir sjávarútveginn, mest til olíuiðnaðar, gekk vel á síðasta ári og jókst frá árinu áður. Heilt yfir gekk rekstur samstæðunnar vel á árinu.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×