Viðskipti innlent

Innlendar eignir lækka og erlendar hækka í bönkunum

Heildareignir innlánsstofnana námu 2.780 milljörðum kr. í lok febrúar s.l. og lækkuðu um 3,6 milljarða kr. frá fyrra mánuði. Innlendar eignir námu 2.481 milljarði kr. og lækkuðu um 14 milljarða kr. og erlendar eignir námu 299,4 milljörðum kr. og hækkuðu um 10,4 milljarða kr. á milli mánaða.

Þetta kemur fram í hagstölum Seðlabankans. Þar segir að heildarskuldir innlánsstofnana námu 2.331 milljarði kr. og hækkuðu um 3,9 milljarða kr. Innlendar skuldir námu 2.143 milljörðum kr. og hækkuðu um 1,7 milljarða kr. en erlendar skuldir lækkuðu um 5,6 milljarða kr. og námu 188 milljörðum kr. Eigið fé nam 448,6 milljörðum kr. í lok febrúar.

Útlán Arion banka hf., Íslandsbanka hf. og NBI hf. eru í þessum tölum metin á kaupvirði þ.e. því virði sem þessir aðilar keyptu útlánasafnið á af Kaupþing banka hf. , Glitni hf. og Landsbanka Íslands hf. Kaupvirðið er það virði sem vænt er að muni innheimtast af útlánunum. Virði útlánasafnsins endurspeglar því ekki skuldastöðu viðskiptavina.

Lánasöfnin eru endurmetin með reglubundnum hætti, sem getur leitt til hækkunar eða lækkunar á virði einstakra lána. Breytingar milli mánaða/ársfjórðunga á útlánasafni þessara aðila geta því stafað af endurmati á virði lána eða af raunverulegum lánahreyfingum.

Gögnin fyrir tímabilið október 2008 – febrúar 2011 eru bráðabirgðagögn og miðast við þær upplýsingar frá bönkum og sparisjóðum sem tiltækar eru á hverjum tíma. Þar sem töluverð óvissa ríkir um mat á eignum í kjölfar bankahrunsins kunna gögnin að breytast eftir því sem áreiðanlegra verðmat verður til.

Það er mat Seðlabankans að gögnin gefi ágæta heildarmynd af eigna- og skuldastöðu bankakerfisins þó fara verði varlega í að draga of miklar ályktanir af ýmsum undirliðum gagna um útlán og niðurfærslur þar sem unnið er að því að samræma framsetningu þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×