Viðskipti innlent

Gott fyrir fjármagnseigendur að fá dagsetningu á afnám gjaldeyrishafta

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Það er gott fyrir fjármagnseigendur að fá dagsetningu á afnám gjaldeyrishafta, að mati hagfræðings Arion banka. Meira þurfi hins vegar til svo hægt verði að auka tiltrú og hvetja til fjárfestinga í landinu.

Áætlun ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um afnám gjaldeyrishaftanna var kynnt á föstudaginn en þar kemur meðal annars fram að lagaheimild um gjaldeyrishöft verði framlengd til ársloka 2015.

Ásdís Kristjánsdóttir hagfræðingur hjá Greiningardeild Arion Banka segir áætlunina mikilvægt skref í að eyða þeirri óvissu sem verið hefur um afnám haftanna með að gefa fólki ákveðna dagsetningu.

„þetta skiptir mjög miklu máli út af því að hingað til hefur alltaf verið þessi óvissa og seðlabankastjóri gefið í skyn að við séum að fara að afnema höftin bráðum, en nú erum við auðvitað komin með þessa dagsetningu 4 ár fram í tímann," segir Ásdís.

Hún segir ekki nægan trúverðugleika vera til staðar til að afnema höftin strax og óttast gengisfall krónunnar eins og varð áður en höftin voru sett á 2008.

„þannig að mínu mati ef að höftin yrðu afnumin á morgun að öllu leyti þá myndi það auðvitað bara leiða til gengisfalls krónunnar, kaupmáttar rýrnun heimila, verðbólguskot og þannig myndi það bara smitast út í hagkerfið og hafa neikvæð áhrif fyrir fyrirtækin í landinu," bætir hún við.

Gjaldeyrishöft til langs tíma hafa heldur ekki jákvæð áhrif á hagkerfið þó þau hafi hingað til gengt mjög mikilvægu hlutverki við að koma á stöðugleika. Skref um að koma aflandskrónum í langtímafjárfestingu í atvinnulífinu eru jákvæð.

„En ég tel að það þurfi meira til, það þarf ef til vill að lækka vexti hér enn neðar til að hvetja áfram fjárfestinguna og þar með eftirspurnina í hagkerfinu. Við erum að horfa fram á áframhaldandi mikinn slaka í hagkerfinu á næstu árum og á meðan við erum í höftum er auðvitað erfitt að hvetja áfram fjárfestingu," segir Ásdís að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×