Viðskipti innlent

Eignir ýmissa lánafyrirtækja hækka að nýju

Eignir ýmissa lánafyrirtækja námu 1.103 milljörðum kr. í lok febrúar og hækkuðu um 8,9 milljarða kr. á milli mánaða. Eignirnar hafa lækkað nær stöðugt allt frá upphafi síðasta árs þegar þær námu rúmum 1.300 milljörðum kr.

Þetta kemur fram í hagtölum Seðlabankans. Þar segir að innstæður í Seðlabankanum námu 30,8 milljörðum kr. og lækkuðu um rúmlega 7 milljarða kr. og kröfur á lánastofnanir lækkuðu um tæpa 4 milljarða kr. og námu 77,1 milljörðum kr.

Útlán og eignarleigusamningar námu 912,3 milljörðum kr. og lækkuðu um 25,5 milljarða kr. í lok febrúar. Eigið fé ýmissa lánafyrirtækja nam 25,7 milljörðum kr. og hækkaði um 33,5 milljarða kr. í febrúar sem má að mestu rekja til 33 milljarða kr. framlags íslenska ríkisins til Íbúðalánasjóðs.

Athygli skal vakin á að gögn fyrir desember 2010 og janúar og febrúar 2011 eru bráðabirgðagögn þar sem lánafyrirtækin hafa ekki öll lokið endanlegu ársuppgjöri fyrir 2010. Gögnin verða því uppfærð eftir því sem nákvæmara uppgjör liggur fyrir. Hagtölur ýmissa lánafyrirtækja endurspegla einungis starfandi lánafyrirtæki.

Til ýmissa lánafyrirtækja teljast Íbúðalánasjóður, fjárfestingarbankar, eignarleigur, greiðslukortafyrirtæki og fjárfestingarlánasjóðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×