Viðskipti innlent

Ísland með ódýrustu póstþjónustuna á Norðurlöndum

Miðað við nágrannalöndin er Ísland langódýrast í póstþjónustu en miklar verðhækkanir hafa átt sér stað undanfarið til dæmis á Norðurlöndunum.  Hvað varðar Evrópusambandið er Ísland fjórða ódýrasta landið í póstþjónustu af 31 löndum.

Í tilkynningu frá Íslandspósti segir að Post Danmark hefur tilkynnt um allt að 45% hækkun á almennum bréfum en sú breyting mun taka gildi 1.apríl næstkomandi, en almennt bréf kostar í dag 120 krónur en til samanburðar kostar sama þjónusta á Íslandi 75 krónur.

Rök Post Danmark fyrir þessari verðhækkun eru þau að bréfamagn hefur dregist verulega saman síðasliðin ár, eða um 20% meðal annars vegna aukinnar rafrænnar notkunar. Þetta eru sömu aðstæður sem Íslandspóstur þarf að takast á við hér á landi. Á Íslandi hefur bréfamagn dregist saman um 25% síðustu þrjú ár í kjölfar þrenginga í efnahagsumhverfi og  aukinnar rafrænnar þróunar.

Einnig hækkaði Norgegur 1. Janúar 2011 almennan bréfapóst í 288 krónur en Posten Norden er að glíma við svipaðar aðstæður og eru hér á landi með póstdreifingu í mjög dreifðri byggð.

Skýrsla sem gerð var fyrir Evrópusambandið, sýnir fram á að Ísland er mjög ódýrt í póstþjónustu í samanburði við önnur lönd. En Ísland er t.d. fjórða  ódýrasta landið af þeim 31 löndum sem miðað er við í skýrslunni í 20 gramma verðflokki bréfa og  í  1 kílógramma pökkum er Ísland með þeim ódýrustu í Evrópu.

Skýrslan sýndi fram á að mjög mikill verðmunur er á póstþjónustu í Evrópu og miklar hækkanir hafa átt sér stað á árunum 2005 til 2009. Tekið var tillit til kaupmáttar í hverju landi fyrir sig og sýnir því skýrslan raunhæfan samanburð. Póstþjónusta í Slóvakíu er dýrust í verðflokki bréfa en á eftir koma Lettland, Noregur og Finnland. Þau lönd sem voru ódýrust í verðflokki bréfa voru Malta, Slóvenía, Kýpur og Ísland.

Ef Norðurlöndin eru eingöngu tekin til samanburðar er Ísland einnig ódýrast í bréfasendingum. Ísland, Danmörk og Finnland eru með einn verðflokk eða frá 0-50 grömm en aftur á móti er Noregur og Svíþjóð með tvo verðflokka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×