Viðskipti innlent

Fækkun stöðugilda framundan hjá sveitarfélögum

Fækkun stöðugilda, breyting á fræðslumálum, að ráða ekki í stöður sem losna og minnkun yfirvinnu eru meðal hagræðingaraðgerða sem sveitarfélög landsins grípa til vegna fjárhagserfiðleika við fjárhagsáætlanir fyrir 2011.

Greint er frá þessu á vefsíðu stjórnarráðsins þar sem vitnað er í nýja könnun Sambands íslenskra sveitarfélaga sem lögð var fram á ársþingi sambandsins fyrir helgina. Könnunin fór fram í febrúar og svöruðu 26 sveitarfélög. Af þeim voru 14 með færri en 1.500 íbúa, tíu með á milli 1.500 og 5.000 íbúa og tvö voru með yfir 5 þúsund íbúa.

Markmið könnunarinnar var annars vegar að fá yfirlit yfir til hvaða aðgerða sveitarfélög hafa gripið í hagræðingarskyni og hins vegar að gera niðurstöðurnar aðgengilegar fyrir sveitarfélögin í því skyni að þau geti lært ,,hvert af öðru til frekari þróunar og aðlögunar á starfsemi sinni í tengslum við breytt rekstrarumhverfi,” eins og segir í inngangi skýrslunnar.

Aðgerðir sem sveitarfélög telja að skili hlutfallslega mestri hagræðingu er fækkun stöðugilda, breytingar á fræðslumálum, launalagfæringar og föst yfirvinna tekin út. Þá eru nefndar fjölmargar aðrar aðgerðir svo sem almennt aðhald á rekstrarvörum, samdráttur í framkvæmdum, lækkun starfshlutfalls, hagræðing á mötuneyti grunnskóla og bann við forfallakennslu.

Valur Rafn Halldórsson, starfsmaður hag- og upplýsingasviðs sambandsins, vann könnunina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×