Viðskipti innlent

Héraðsdómur hafnar 87 milljarða kröfu í Kaupþing

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað að hafna beri 463 milljóna punda, eða rúmlega 87 milljarða kr., kröfu dótturfélags Kaupþings á eyjunni Mön í þrotabú Kaupþings.

Það var Kaupthing Singer & Friedlander Isle of Man Limited (KSFM) sem gerði fyrrgreinda kröfu á hendur þrotabúi Kaupþings en KSFM var hluti af Kaupþingssamstæðunni fyrir hrunið haustið 2008.

KSFM byggði kröfu sína m.a. á því að Kaupþing beri ábyrgð á skuldbindingum KSFM á grundvelli yfirlýsingar Hreiðars Más Sigurðssonar, forstjóra samstæðu Kaupþings banka hf., til Fjármálaeftirlitsins á Mön 29. júní 2005. Í yfirlýsingunni kemur fram að það samrýmist viðskiptalegum hagsmunum Kaupþings banka hf. að Singer & Friedlander (Isle of Man) Limited haldi áfram að greiða skuldir sínar eftir því sem þær falli í gjalddaga og efni skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum.

Því viðurkenni Kaupþing banki hf. að bankanum beri skylda, umfram þær lagalegu skyldur sem á honum kunni að hvíla, til að verja fjárhagslegan stöðugleika og til að tryggja að félagið sé ávallt í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar.

Í dóminum segir að ekki liggur fyrir hvert var tilefni þessarar yfirlýsingar. Hins vegar ber hún með sér að henni er beint að Fjármálaeftirlitinu á Mön og tekur hún aðeins til skuldbindinga Singer og Friedlander, en ekki KSFM í máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu getur KSFM ekki byggt rétt á yfirlýsingunni. Hefur hún því enga þýðingu við úrlausn málsins.

Tekist var á um móðurfélagsábyrgð í málinu. Dómurinn tekur er undir það með Kaupþingi að málsástæða KSFM, þess efnis að móðurfélagsábyrgðin hafi leitt til óréttmætrar auðgunar, er vanreifuð. Þannig hefur KSFM ekki fært sönnur á þá fullyrðingu sína að ábyrgðin hafi verið forsenda fyrir yfirtöku og kaupum Kaupþings á fjármálafyrirtækinu Derbyshire Offshore og áframhaldandi og auknum viðskiptum viðskiptavina.

Ekki hefur hann heldur sýnt fram á að móðurfélagsábyrgðin hafi verið nauðsynleg forsenda þess að Kaupþing millifærði háar fjárhæðir til sín í kjölfar yfirtökunnar. Loks ber fjárhæð kröfunnar og sundurliðun hennar í kröfulýsingu þess vitni að með henni er KSFM að krefjast greiðslu allra skuldbindinga sem ekki verða greiddar með eignum Kaupþings, en ekki aðeins þeirra innstæðna sem hann heldur fram að Kaupþing hafi millifært í kjölfar yfirtökunnar. Í því ljósi verður þessari málsástæðu KSFM hafnað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×