

Skynsamir menn semja
Þegar brýn mál bíða ákvörðunar er öðru mikilvægara að rök með og móti séu íhuguð af vandvirkni. Íslendingum er mjög margt betur gefið en að taka vitrænar ákvarðanir eftir skynsamlegar umræður og rökræður hverfa ótrúlega oft í misskilning og tittlingaskít.
Undanfarna áratugi hef ég sinnt lögmannsstörfum í Reykjavík fyrir mjög mismunandi viðskiptamenn. Í þeim störfum hef ég m.a. öðlazt þá reynslu að í deilum manna á milli, eða deilum fyrirtækja og stofnana, sé mikilvægt að freista þess að ná sáttum, semja frekar en að fara með mál fyrir dóm. Fornkveðið er: Betri er mögur sátt en feitur dómur. Boðskapurinn er að sjálfsögðu sá að með því að leysa mál með samningum veit hvor aðili um sig hvað hann hreppir og hverju hann sleppir. Jafnframt eru málin þá afgreidd og hægt að taka til við önnur og frjórri verkefni. Sumir Íslendingar á öllum tímum hafa verið miklir málafylgjumenn og haft yndi af því að argast í dómsmálum, hugsanlega sjálfum sér til ánægju en jafnframt öðrum til ama.
Að sjálfsögðu er það svo að engum kjósanda fellur að þurfa að „greiða erlendar skuldir óreiðumanna“, þó nú væri. Sú andúð má þó ekki koma í veg fyrir að Íslendingar taki ábyrga afstöðu fyrir sig sjálfa, börn sín og annað ungt fólk. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), sem sinnir eftirliti með framkvæmd samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES), hefur nú komizt að þeirri bráðabirgðaniðurstöðu að íslenzka ríkið hafi brotið EES-samninginn með því að bæta ekki erlendum innstæðueigendum í Landsbanka Íslands að minnsta kosti þá lágmarksfjárhæð sem reglur EES kveða á um. Virtir íslenzkir lögfræðingar hafa komizt að annarri niðurstöðu. Skoðanir þeirra hafa þó ekki mikla vigt í samanburði við skoðun ESA.
Felli íslenzkir kjósendur lögin um Icesave er nánast víst að ESA muni höfða mál fyrir EFTA-dómstólnum á hendur íslenzka ríkinu fyrir samningsbrot. Í langflestum tilvikum sem ESA hefur höfðað mál fyrir EFTA-dómstólnum á hendur samningsríkjunum hefur dómstóllinn fallizt á kröfur eftirlitsstofnunarinnar. Yrði sú niðurstaðan stæði íslenzka ríkið uppi brotlegt við mikilvægan alþjóðasamning, sem Íslendingar eiga mikið undir. Og það sem verra er, Íslendingar stæðu þá uppi sem óreiðumenn sem ekki greiða skuldir sínar.
Bretar og Hollendingar þurfa ekki að höfða mál fyrir íslenzkum dómstólum né annarra ríkja til að heimta kröfur sínar vegna Icesave, raunar ósennilegt að þeir myndu gera það. Þótt fjárhæðirnar séu okkur háar eru þær lágar fyrir ríkissjóði Breta og Hollendinga. Íslendingar mundu gjalda þess á alþjóðavettvangi að vera óskilamenn. Það frost sem hefur verið í framtakssemi Íslendinga undanfarin tvö ár mundi halda áfram, traust okkar í útlöndum sem hefur sennilega farið heldur vaxandi undanfarin misseri mundi hverfa eins og vorsnjór í aprílregni.
Við mat á því hvort stefna eigi málum til dóms verður ekki síður að huga að því hvað kunni að tapast en hvað kunni að vinnast. Hætt er við því að Íslendingar yrðu litlu betur settir þótt íslenzka ríkið ynni mál sem höfðað væri fyrir íslenzkum dómstólum, fórnarkostnaðurinn kæmi fram á öðrum vettvangi. Ef íslenzka ríkið tapaði málinu er hætt við að Icesave-samningurinn yrði eins og barnaleikur hjá þeirri fjárhæð sem krafan yrði þá um.
Þeir sem komnir eru vel yfir miðjan aldur og efnalega vel settir þurfa í sjálfu sér engu að kvíða (öðru en spotti á erlendum grundum). Ungu fólki sem enn liggur mikið á mun sýnast efnalegar framfarir mjög miklu minni en það nú væntir. Framtíð þess væri stefnt í óvissu. Allt til þess að efla enn smáborgaraskap og fávizku þeirra sem vilja allt til vinna að koma höggi á þá sem veittu umboðið til samninga um lyktir Icesave-deilunnar. Hætt er við að stórmennskukast þeirra sem ævinlega vilja segja: Komdu ef þú þorir, sérstaklega ef þeir eru í tryggu skjóli, gæti reynzt dýrkeypt.
Skoðun

Daði Már týnir sjálfum sér
Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar

Samhljómur við náttúruna og sjálfbæra þróun
Anna María Ágústsdóttir skrifar

Aðgerðir gegn mansali í forgangi
Þorbjörg S. Gunnlaugsdóttir skrifar

Enginn á verðinum – um ábyrgð, framtíðarsýn og mikilvægi forvirkrar stjórnsýslu
Guðjón Heiðar Pálsson skrifar

Framtíðin fær húsnæði
Ingunn Gunnarsdóttir skrifar

Börnin sem deyja á Gaza
Elín Pjetursdóttir skrifar

Brýr, sýkingar og börn
Jón Pétur Zimsen skrifar

Konum í afplánun fjölgar: Með flókin áföll á bakinu
Tinna Eyberg Örlygsdóttir,Sigríður Ella Jónsdóttir skrifar

Hvað er lýðskóli eiginlega?
Margrét Gauja Magnúsdóttir skrifar

Búum til pláss fyrir framtíðina
Birna Þórarinsdóttir skrifar

Hættuleg ofnotkun svefnlyfja á Íslandi
Drífa Sigfúsdóttir skrifar

Kveikjum neistann um allt land
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Ætlar Ísland að fara sömu leið og Evrópa í útlendingamálum?
Kári Allansson skrifar

Samtökin 78 verðlauna sögufölsun
Böðvar Björnsson skrifar

Afstaða – á vaktinni í 20 ár
Arndís Vilhjálmsdóttir,Guðbjörg Sveinsdóttir skrifar

Menntun sem mannréttindi – ekki forréttindi
París Anna Bergmann,Sigurður Kári Harðarson skrifar

Varað við embætti sérstaks saksóknara
Gestur Jónsson skrifar

Út af sporinu en ekki týnd að eilífu
María Helena Mazul skrifar

Meira að segja formaður Viðreisnar
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Gaza sveltur til dauða - Tími bréfaskrifta er löngu liðinn
Magnús Magnússon,Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Steypuklumpablætið í borginni
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir skrifar

Kærum og beitum Ísrael viðskiptabanni!
Pétur Heimisson skrifar

Blæðandi vegir
Sigþór Sigurðsson skrifar

Fái einstaklingar sem eru hættulegir sjálfum sér ekki viðeigandi búsetuúrræði blasir við mikill harmleikur
Elínborg Björnsdóttir skrifar

Hroki og hleypidómar - syngur Jónas Sen?
Bjarnheiður Hallsdóttir skrifar

Sveitarfélög gegna lykilhlutverki í vistvænni mannvirkjagerð
Guðrún Lilja Kristinsdóttir,Bergþóra Góa Kvaran skrifar

„Nýtt veiðigjald: sátt byggð á hagkvæmni“
Svanur Guðmundsson skrifar

Opinber áskorun til prófessorsins
Brynjar Karl Sigurðsson skrifar

Nærvera
Héðinn Unnsteinsson skrifar

Þegar Dagur lét mig hrasa á gangstéttarhellu
Björn Teitsson skrifar