Viðskipti innlent

Hlutbréf Össurar hf. út úr og svo aftur inn í Kauphöllina

Kauphöllin hefur samþykkt beiðni Össurar hf. um töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum. Hlutabréfin verða tekin úr viðskiptum í Kauphöllinni við lok viðskipta þann 25. mars, 2011. Hlutabréfin verða svo aftur tekin til viðskipta í Kauphöllinni að eigin frumkvæði hennar þann 28. mars eins og heimilt er í lögum.

Kauphöllin hefur birt tvær tilkynningar um málið. Í þeirri fyrri er greint frá því að viðskiptum með bréf í Össuri verði hætt að beiðni félagsins sem sótt hefur um afskráningu þeirra.

„Aðalfundur Össurar samþykkti þann 4. mars sl. ákvörðun stjórnar um að óska eftir töku hlutabréfa félagsins úr viðskiptum í Kauphöllinni. Enn fremur hefur Össur tilkynnt Kauphöllinni að fari svo að Seðlabankinn muni ekki, í tilefni hækkunar hlutafjár í félaginu, veita viðkomandi hluthöfum undanþágu frá gjaldeyrisreglum til að afla sér erlends gjaldeyris til greiðslu fyrir hið nýja hlutafé, muni félagið taka við greiðslum í íslenskum krónum," segir í þessari tilkynningu.

Í seinni tilkynningunni segir að ákvörðun um að taka hlutabréfin aftur til viðskipta 28. mars byggi á 23. gr. laga um kauphallir sem heimilar kauphöll að taka verðbréf til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði án samþykkis útgefanda hafi verðbréfin verið tekin til viðskipta á öðrum skipulegum verðbréfamarkaði á Evrópska efnahagssvæðinu.

„Ákvörðun Kauphallarinnar um að taka hlutabréf Össurar til viðskipta að eigin frumkvæði er tekin með hliðsjón af þeim gjaldeyrishöftum sem nú eru við lýði á Íslandi. Gjaldeyrishöftin þýða að Kauphöllin er eini skipulegi verðbréfamarkaðurinn þar sem íslenskir fjárfestar, þ.m.t. íslenskir hluthafar Össurar, geta keypt og selt hlutabréf í félaginu án takmarkana," segir í tilkynningunni.

„Viðskipti með hlutabréf Össurar munu lúta sömu reglum og eftirliti og önnur viðskipti með hlutabréf í Kauphöllinni. Samkvæmt 23. gr. laga um kauphallir er Össuri ekki skylt að sinna upplýsingaskyldu gagnvart Kauphöllinni enda er taka til viðskipta ekki gerð með samþykki félagsins. Félagið sinnir hins vegar upplýsingaskyldu gagnvart kauphöllinni í Kaupmannahöfn."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×