Viðskipti innlent

Hérðasdómur vísaði frá kröfu á hendur Capacent

Kröfu skiptastjóra í þrotabúi GH1 (áður Capacent) um innsetningu á eignum Capacent var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur 21. febrúar.  Áður, eða þann 8. desember 2010,  hafði kröfu skiptastjóra um  lögbann á notkun vörumerkis Capacent verið synjað af sýslumanni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Capacent. Þar segir að starfsmenn Capacent hafa á undanförnum mánuðum orðið að sitja undir ítrekuðum rangfærslum skiptastjóra í fjölmiðlum og ásökunum um lögbrot.

Fréttatíminn greinir í dag frá því að CreditInfo hafi nýlega gert tilboð um kaup á Capacent ehf. Tilboðið var sent í lok febrúar 2011, um hálfu ári eftir að starfsmenn keyptu reksturinn.  Í fréttinni er staðhæft að tilboðið sé tífalt hærra en það kaupverð sem greitt var fyrir rekstur og vörumerki Capacent í september 2010.

Þessi staðhæfing er röng.Í fyrsta lagi var það verð sem starfsmenn greiddu margfalt hærra en fram kemur í fréttinni. Fyrir liggur óháð mat frá einu af stærstu endurskoðunarfyrirtækjum landsins þar sem staðfest er að kaupverð hafi verið eðlilegt. Engu að síður er ágreiningur um kaupverðið og í slíkum tilvikum er eðlilegt að skorið sé úr um ágreiningsefni fyrir dómstólum.

Í öðru lagi er verið að bera saman epli og appelsínur. Annars vegar kaup á eignum félags sem var að fara í gjaldþrot og hins vegar kaup á fyrirtæki í fullum rekstri.

Frá því að nýja félagið var stofnað hefur starfsfólk Capacent lagt tugi milljóna í félagið og byggst hafa upp viðskiptakröfur og aðrar eignir sem ekki voru til staðar i september í fyrra, auk þess sem tókst  að semja  að nýju við viðskiptavini og samstarfsaðila.

Við kaup á rekstri Capacent sátu viðskiptakröfur og reiðufé eftir í þrotabúinu enda veðsettar viðskiptabanka Capacent. Einungis óveðsettar eignir voru keyptar. Niðurstaða sýslumanns í lögbannsmáli, sem byggði m.a. á að veðsettar eignir höfðu verið seldar er sú að löglega hafi verið að kaupunum staðið.

Á því hálfa ári sem liðið er frá þroti gamla félagsins hefur starfsfólk lagt á sig ómælda vinnu til að koma rekstri nýs félags á rétta braut.  Það er í sjálfu sér ánægjulegt að önnur fyrirtæki skuli nú sýna áhuga á að kaupa reksturinn eins og hann er í dag. Félagið er hins vegar ekki til sölu.

Capacent er þekkingarfyrirtæki og verðmæti þess felast í þekkingu og reynslu starfsmanna. Þau verðmæti eru hins vegar í „eigu“ starfsmanna en ekki félagsins. Með kaupum starfsmanna á rekstrinum var tryggt að félagið hefði áfram aðgang að þekkingu starfsmanna. Samhliða var tryggt að um hundrað störf voru varin, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×