Viðskipti innlent

Tchenguiz fékk væna þóknun fyrir að vera tengiliður

Robert Tchenguiz
Robert Tchenguiz
Fjárfestir greiddi Robert Tchenguiz eina milljón punda eða sem samsvarar um 200 milljónum íslenskra króna í þóknun fyrir að koma sér í kynni við Kaupthing. Í kjölfarið fékk fjárfestirinn, Moises Gertner, há lán frá Kaupthingi og keypti síðar stóran hlut í bankanum. Frá þessu er greint í breska blaðinu Daily Mail í dag.

Blaðið segir að talsmaður Tchenguiz hafi ekki getað tjáð sig um þetta en hann hafnar því að Kaupthing hafi greitt Tchenguiz þóknunina. Blaðið heldur því fram að eitt af því sem SFO rannsaki nú sé hlutverk Tchenguiz sem tengiliður milli bankans og væntanlegra viðskiptavina og fjárfesta.

Fleiri breskir miðlar fjölluðu um rannsókn bresku efnahagsbrotadeildarinnar Serious Fraud Office á Kaupthingi í morgun. Samkvæmt Telegraph er frekari húsleita að vænta hjá SFO á næstunni en húsleitir efnahagsbrotadeildarinnar í síðustu viku leiddu til handtöku níu manna í Bretlandi og Reykjavík. Blaðið segir rannsakendur einbeita sér að háum lánum sem Robert Tchenguiz hlaut rétt fyrir fall Kaupthings árið 2008.

Rannsóknin er einnig sögð beinast að svokölluðum „vinum Kaupthings“ eða þeim níu aðilum sem handteknir voru í síðustu viku. Þá segir blaðið að í kjölfar frekari húsleita gætu fleiri þekktir aðilar úr viðskiptalífinu hérlendis og í Bretlandi verið leiddir til yfirheyrslu.


Tengdar fréttir

Frekari húsleitir líklegar

Talið er að breska efnahagsbrotadeildin Serious Fraud Office muni á næstu vikum halda áfram húsleitum vegna rannsóknar sinnar á falli íslenska bankakerfisins en húsleitir þeirra í síðustu viku leiddu til handtöku níu manna í Bretlandi og Reykjavík. Þetta kemur fram í breska blaðinu Telegraph í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×