Viðskipti innlent

Bensínið gæti hækkað um tíu krónur til viðbótar

Búast má við frekari eldsneytishækkunum hér á landi ef innkaupaverð á olíu helst í núverandi hæðum. Bensín gæti hækkað um allt tíu krónur til viðbótar.

Innkaupaverð á Brent hráolíu stendur nú í um 114 dollurum tunnan en verðið rauk úr 100 dollurum í 116 einkum vegna mikils óróa í Mið-Austurlöndum. Á föstudaginn lækkaði olíuverð hins vegar aðeins vegna jarðskjálftans í Japan en Japan er þriðji stærsti innflytjandi olíu í heiminum. Olíuverð nálgast nú óðum hæsta gildi frá upphafi en sumarið 2008 fór verðið yfir 140 dollara tunnan.

Ljóst er að haldist olíuverð í þessum hæðum mun það ógna efnahagsbata heimsins þar sem stærri hluti vergrar landsframleiðslu fer nú í olíukaup segir í markaðspunktum sem Greiningardeild Arion Banka sendir frá sér. Þá mun hærra olíuverð valda tekjutilfærslu milli aðila. Neytendur tapa á meðan ríkisstjórnir í gegnum skatta og eignahluti og hluthafar olíufyrirtækja græða.

Viðskiptablaðið Financial Times heldur því fram að verðhækkanir á olíu haldi hagkerfum heims í gíslingu og séu ekki ábætandi þar sem flestar ríkisstjórnir hafi nú þegar skorið umtalsvert niður í ríkisútgjöldum og megi ekki við lægri einkaneyslu en spár gera ráð fyrir. Verðhækkanir valda auk þess verðbólgu sem gæti leitt til hærra vaxtastigs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×