Viðskipti innlent

Össur hf. verður áfram í úrvalsvísitölu Kauphallarinnar

Kauphöllin hefur ákveðið að halda Össuri hf. (Össur) áfram í OMXI6 vísitölunni eða það sem kallað er úrvalsvísitalan í Kauphöllinni.

Í tilkynningu segir að sú ákvörðun byggi á markaðstilkynningum frá Kauphöllinni sem birtar voru 11. mars s.l., þar sem annars vegar var skýrt  frá ákvörðun um að verða við beiðni Össurar varðandi töku hlutabréfa félagsins (auðkenni: OSSR) úr viðskiptum og hins vegar að Kauphöllin hefði ákveðið að taka bréfin aftur til viðskipta að eigin frumkvæði.

Lokadagur núverandi skráningar Össurar í Kauphöllinni verður þann 25. mars 2011 en viðskipti með bréfin munu engu að síður halda áfram þaðan sem frá var horfið þann 28. mars 2011 undir nýju auðkenni, OSSRu.

Verður OSSR auðkenninu skipt út fyrir OSSRu auðkennið þann 28. mars 2011. OSSRu auðkennið mun koma inn í vísitöluna á dagslokaverði OSSR auðkennisins frá 25. mars 2011 og mun það gilda þar til nýtt verð hefur myndast á markaðnum. Fjöldi hluta Össurar í vísitölunni verður óbreyttur. Meðhöndlun Össurar í öðrum vísitölum verður einnig óbreytt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×