Viðskipti innlent

Áhættuálagið á ríkissjóð helst stöðugt

Skuldatryggingaálag á evruskuldir Ríkissjóðs Íslands hefur lítið breyst að undanförnu. Í lok dags í gær stóð álagið til 5 ára í 243 punktum (2,43%) samkvæmt gögnum úr Bloomberg-gagnaveitunni sem er það sama og það var í lok síðustu viku.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að álagið á Ísland er svipað og það er á Spán sem stóð í lok dags í gær í 241 punkti. Þó hefur álagið á Spán lækkað nokkuð frá því í lok síðustu viku þegar það stóð í 257 punktum.

Einnig hefur álagið á gríska ríkið komið nokkuð til baka eftir þá hækkun sem var á því í síðustu viku. Þannig var álagið á gríska ríkið 969 punktar í lok dags í gær en það hafði verið yfir 1.000 punktum alla síðustu viku.

Hefur þetta m.a. haft þau áhrif að meðaláhættuálagið á ríki Vestur Evrópu hefur lækkað nokkuð frá því í lok síðustu viku. Í lok dags í gær var það um 196 punktar en hafði verið 205 punktar síðastliðinn föstudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×