Viðskipti innlent

Sjóvá skilaði 800 milljóna hagnaði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. skilaði 811 milljóna króna hagnaði eftir skatta á árinu 2010. Rekstrarhagnaður fyrir skatta og afskriftir óefnislegra eigna nam 1.369 milljónum króna og arðsemi eigin fjár 6,6 prósentum. Eigið fé Sjóvár nam 12,3 milljörðum króna í lok árs 2010 og var eiginfjárhlutfallið 33,6% miðað við 32,6% 2009.

Í fréttatilkynningu vegna ársreikningsins fyrir síðasta ár kemur fram að heildartekjur í fyrra námu 12,3 milljörðum króna, þar af voru iðgjöld 11 milljarðar og afkoma af fjármagnsliðum 1,3 milljarðar. Útgjöld félagsins vegna greiðslu tjóna námu 7,8 milljörðum. Alls nam rekstrarkostnaður af vátryggingastarfsemi 3,2 milljörðum króna. Inni í þeirri tölu eru 156 milljónir vegna niðurfærslu á viðskiptakröfum og 362 milljónir vegna afskrifta á óefnislegum eignum. Tekjuskattur vegna ársins nam 196 milljónum króna.

„Sjóvá stendur traustum fótum og er vel í stakk búið til að takast á við nýjar áskoranir. Uppgjörið er gott í ljósi erfiðs viðskiptaumhverfis. Samsett hlutfall upp á 95,6% er það lægsta í langan tíma hjá félaginu og er nú sambærilegt við það sem gerist meðal vátryggingafélaga erlendis, segir Lárus Ásgeirsson, forstjóri Sjóvár í fréttatilkynningu.  








Fleiri fréttir

Sjá meira


×