Viðskipti innlent

Kauphöllin áminnir Arion banka opinberlega

Kauphöllin hefur ákveðið að áminna Arion banka hf. opinberlega vegna atvika þar sem bankinn er talinn hafa gerst brotlegur við ákvæði aðildarreglna Kauphallarinnar.

Í tilkynningu segir að í lok nóvember 2010 hafði Arion samband við Kauphöllina og upplýsti að vegna tæknilegra mistaka hefði farist fyrir að tilkynna, í viðskiptakerfi Kauphallarinnar, fjölda viðskipta sem framkvæmd höfðu verið af bankanum á tímabili frá mars 2010 til loka nóvember 2010.

Í niðurstöðum Kauphallarinnar segir að óumdeilt sé að Arion tilkynnti ekki á réttum tíma fjölda viðskipta sem skylt var að tilkynna í viðskiptakerfi Kauphallarinnar samkvæmt  ákvæðum í NMR reglum hennar.

Kauphöllin lítur alvarlegum augum á það hversu seint tæknileg mistök í tengingu við viðskiptakerfi Kauphallarinnar komu í ljós. Eins og fram kemur í ákvæðum NMR er það á ábyrgð kauphallaraðila að tryggja að uppsetning kerfa og tenging við viðskiptakerfi Kauphallarinnar sé með þeim hætti að hægt sé að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í NMR reglunum.

Augljóst er að uppsetning á innanhúskerfi Arion stóðst ekki tilskyldar kröfur en Kauphöllin telur sérstaklega ámælisvert hversu eftirliti með viðskiptatilkynningum var ábótavant.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×