Viðskipti innlent

Lausafjárstaða Landsvirkjunar aldrei verið sterkari

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar,  er mjög sáttur við uppgjörið
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, er mjög sáttur við uppgjörið
Lausafjárstaða Landsvirkjunar er sterk og hafði fyrirtækið um áramót aðgang að 573,2 milljónum bandaríkjadala eða sem nemur 65,9 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Landsvirkjunar.

„Við erum mjög sátt við þetta uppgjör. Landsvirkjun hefur verið að auka áherslu á að hámarka langtímaarðsemi orkunýtingar og ber ársreikningurinn merki þess.  Nýr samningur við Alcan á Íslandi hf. var ákveðinn áfangi á þeirri leið þar sem verðþróun raforku á Íslandi var tengd þróun raforkuverðs á alþjóðlegum mörkuðum og álverðstenging afnumin," segir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar.

Aukning á rekstrartekjum

„Landsvirkjun hefur einnig lagt áherslu á að jafna áhættu í efnahagsreikningi sínum með því að greiða niður skuldir en jafnframt tryggja aðgengi að lausafé.  Árið  2010 var annað árið í röð þar sem fyrirtækið greiðir niður skuldir sínar og í árslok var aðgengi að lausu fé upp á 65,9 milljarða króna sem hefur aldrei verið hærra.  Á árinu 2011 verður áfram lögð áhersla á að lækka skuldir félagsins," segir hann.

Rekstrartekjur Landsvirkjunar námu 377,6 milljónum bandaríkjadala (43,4 milljarðar króna) á síðasta ári, sem er  10,3% aukning á milli ára.

EBITDA nam 298,1 milljón dollara (34,3 milljarðar króna)  að teknu tilliti til innleystra áhættuvarna tengdum álverði.  EBITDA hlutfall er 78,9% af veltu.

Handbært fé frá rekstri nam 229,6 milljónum USD (26,4 milljarðar) en var 197,0 milljónir USD árið áður sem er 16,5% aukning.

Hagnaður eftir skatta nam 72,9 milljónum USD (8,4 milljarðar), en var 192,9 milljónir USD árið áður.

Nýir raforkukaupendur

„Horfur á árinu 2011 eru góðar og helgast af hagstæðu vaxtaumhverfi og viðunandi álverði. Þá hefur fyrirtækið  mætt miklum áhuga, nýrra jafnt sem eldri, viðskiptavina á kaupum á raforku.  Samningur við Íslenska Kísilfélagið ehf. sem undirritaður var í febrúar 2011 er til marks um það.  Til að mæta  aukinni sölu þá hefur Landsvirkjun hafið framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun og standa vonir til að fjármögnun hennar ljúki innan skamms.  Einnig áformar félagið fjárfestingar fyrir 1,5 milljarða króna í verkefni á Norðausturlandi á árinu.“ sgeir Hörður.

Ársreikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og er hann í Bandaríkjadölum sem er starfrækslugjaldmiðill móðurfélagsins. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×