Viðskipti innlent

Útgáfa íbúðabréfa ÍLS í ár allt að 38 milljarðar

Áætluð útgáfa íbúðabréfa Íbúðalánasjóðs (ÍLS) árið 2011 er 30 – 38 milljarðar króna að nafnverði sem samsvarar um 40 – 50 milljörðum króna að markaðsvirði.

Íbúðalánasjóður áætlar að ný útlán sjóðsins verði 27 – 35 milljarðar króna á árinu 2011, sem er aukning útlána milli ára. Þar af er gert ráð fyrir að leiguíbúðalán verði 8 – 10 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum. Þar segir að nokkur óvissa ríkir um útlána- og útgáfuáætlanir fyrir árið 2011 og nákvæmar tölur um áætluð útlán og útgáfu íbúðabréfa er því ekki hægt að gefa upp. Þannig geta einstaka tölur í útboðum færst á milli ársfjórðunga og veltur það á markaðsaðstæðum hverju sinni.

Íbúðalánasjóður áætlar að greiða lánardrottnum sínum 65 - 73 milljarða króna árið 2011 og er stærstur hluti þeirra tilkominn vegna afborgana íbúðabréfa.Áætlun þessi miðast við núverandi aðstæður á fasteigna- og íbúðalánamarkaði. Verði breytingar á markaðsaðstæðum má reikna með að ofangreind áætlun geti breyst. Íbúðalánasjóður endurskoðar áætlanir sínar ársfjórðungslega og oftar ef þörf krefur.

Fyrir liggur að ríkissjóður muni leggja sjóðnum til aukið eigið fé sem nemur 33 milljarðar króna, sem gert er ráð fyrir að komi til afhendingar í formi RIKH 18 1009 á fyrsta ársfjórðungi 2011. Kannað verður með möguleika á sölu ríkisbréfanna ef markaðsaðstæður leyfa og gæti slík sala haft áhrif til lækkunar á útgáfu íbúðabréfa á árinu 2011. Ekki er vitað með vissu hve stór hluti flokksins yrði seldur né hversu mikið áætluð útgáfa íbúðabréfa kynni að lækka á árinu 2011 en sjóðurinn mun uppfæra áætlanir sínar um útgáfu þegar það skýrist nánar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×