Viðskipti innlent

Kauphöllin: Veruleg aukning í hlutabréfaviðskiptum

Heildarviðskipti með hlutabréf námu 5.540 milljónum kr.  í febrúar eða 277 milljónum kr. á dag.  Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í janúar í fyrra 2.880 milljónum eða 137 milljónum á dag.

Í tilkynningu frá Kauphöllinni segir að mest voru viðskipti með bréf Icelandair 3.015 milljónir kr., bréf Marels 2.147 milljónir kr. og bréf Össurar 216 milljónir kr.  Úrvalsvísitalan (OMXI6) lækkaði lítillega á milli mánaða (0,1%) og stendur í 1006 stigum.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 194 milljörðum kr. í síðasta mánuði sem samsvarar 9,7 milljarða kr. veltu á dag samanborið við  9,6 milljarða kr. veltu á dag í janúarmánuði. Mest voru viðskipti með ríkisbréf eða 134 milljarðar kr. en viðskipti með íbúðarbréf námu 54 milljörðum kr.

“Aukin gróska er á hlutabréfamarkaði, viðskipti eru að glæðast og félög sýna skráningu á markað áhuga. Þessi þróun gefur fyrirtækjum sem huga að innkomu á hlutabréfamarkaðinn góð fyrirheit um það sem koma skal”, segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar í tilkynningunni.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Landsbankinn með mestu hlutdeildina 43,2% (37% á árinu),  Íslandsbanki með 21,8% (24,7% á árinu) og Saga Fjárfestingarbanki með 9,4% (10,5% á árinu). Á skuldabréfamarkaði var MP Banki með mestu hlutdeildina 28,1% (26,8% á árinu), Íslandsbanki með 23,0% (23,1% á árinu) og Landsbankinn með 15,7% (19,4% á árinu).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×