Viðskipti innlent

Börðust gegn því að gögnin frá Lúx yrðu afhent

Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og fyrrverandi hluthafar Kaupþings banka börðust gegn því að sérstakur saksóknari fengi lykilgögn frá Banque Havilland í Lúxemborg, en gögnin hafa nú verið afhent.

Það tók embætti sérstaks saksóknara um ár að fá gögn sem aflað var í húsleit í Banque Havilland bankanum í Lúxemborg, sem áður var Kaupþing í Lúxemborg, send til Íslands.

Embættið fékk um 150 kíló af skjölum auk rafrænna gagna afhent um miðjan febrúar eftir að Hæstiréttur í Lúxemborg hafði úrskurðað að afhenda ætti gögnin. Tafir á afhendingu gagnanna var að tólf aðilar kærðu afhendingu gagnanna, en lengi hefur leikið grunur á að á bakvið þau félög sem kærðu afhendingu hafi verið aðilar tengdir fyrrum stjórnendum og eigendum Kaupþings banka. Viðskiptablaðið greinir frá  því í dag að þeir sem mótmæltu afhendingu hafi einmitt verið Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður, Ólafur Ólafsson, sem var annar stærsti hluthafi bankans og aðrir stórir viðskiptavinir bankans eins og Skúli Þorvaldsson, Egill Ágústsson og Einar Bjarni Sigurðsson.

Fram kemur í Viðskiptablaðinu að gögnin hafi verið haldlögð í húsakynnum Banque Havilland, Pillar Securitisation, sem er þrotabú Kaupþings í Lúxemborg og heima hjá og í bíl Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra Banque Havilland. Talið er að gögnin hafi verulega þýðingu fyrir rannsókn embættis sérstaks saksóknara á málefnum Kaupþings, en fyrrverandi stjórnendur bankans er grunaðir um markaðsmisnotkun og ýmis auðgunarbrot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×