Viðskipti innlent

Markaður með leiguíbúðir nær jafnvægi

Greining Íslandbanka segir að svo virðist sem markaðurinn með leiguíbúðir hafi náð einhvers konar jafnvægi hvað fjölda þinglýstra leigusamninga varðar.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að í febrúar síðastliðnum var alls 687 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst hér á landi. Eru þetta heldur færri leigusamningar en var þinglýst í febrúar í fyrra þegar þeir voru 741 talsins, sem og í febrúar árið 2009 þegar þeir voru 809 talsins. Þetta er meiri samdráttur á milli ára en mælst hefur undanfarna mánuði.

„Sveiflur eru hins vegar talsverðar í þeirri mælingu og því hentugra að horfa í lengri tíma þróun til að áætla hvert markaðurinn er að fara. Þannig hefur tólf mánaða meðaltal í fjölda leigusamninga verið nokkuð stöðugt undanfarið  eftir talsverðan vöxt árið 2009. Virðist markaðurinn hafa náð einhvers konar jafnvægi hvað fjölda þinglýstra leigusamninga varðar. Það var Þjóðskrá Íslands sem birti tölur um fjölda leigusamninga í febrúar nú í morgun,“ segir í Morgunkorninu.

Eins og við höfum áður fjallað um þá virðist eðlisbreyting hafi átt sér stað á markaðnum hér á landi með íbúðarhúsnæði þannig að leigumarkaðurinn hefur stækkað sem hlutfall af heildaríbúðarmarkaðinum. Að okkar mati er þessi þróun eðlileg í ljósi aðstæðna þar sem mörg heimili hafa orðið illa úti í hruninu og hafa lítið sem ekkert eigið fé til að tefla fram í íbúðarkaupum. Aðgangur að lánsfé til íbúðakaupa er einnig takmarkaðri en hann var fyrir hrun.

Þá eru margir sem ekki hafa viljað leggja sparnað sinn í íbúðakaup á þeim tímum verðlækkunar á íbúðarhúsnæði og mikillar verðbólgu sem einkenndi lengi vel tímabilið eftir hrun. Á móti eru fjárfestar í einhverju mæli farnir að snúa sér að íbúðamarkaðinum í leit að arðsemi í því afar takmarkaða framboði sparnaðarkosta sem eru til staðar í krónum sem er í gjaldeyrishöftum.

Leigumarkaðurinn hér á landi hefur verið afar lítill í samanburði við flest önnur lönd. Yfirgnæfandi meirihluti heimila hefur átt það húsnæði sem þau hafa búið í og í flestum tilfellum verið með verðtryggð húsnæðislán og í sumum tilfellum gengisbundin. Þessi uppbygging íbúðarmarkaðarins var ein af ástæðum þess af hverju mörg íslensk heimili fóru afar illa út úr hruninu. Markaðurinn fraus á sama tíma og verð lækkaði og lánin hækkuðu vegna gengisbreytinga og aukinnar verðbólgu. Eigið fé, sem í mörgum tilfellum var afar lítill hluti eignarinnar, brann upp á skömmum tíma.

Eðlisbreytingar á þessum markaði er þörf til að draga þessari sterku tengingu milli gengisþróunar og eignarstöðu heimilanna. Stærri og virkari leigumarkaður er skref í þá átt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×