Viðskipti innlent

Ferðamönnum fjölgaði um 12,6% milli ára í febrúar

Tæplega 23 þúsund erlendir gestir fóru frá landinu í nýliðnum febrúarmánuði og er um að ræða 2.500 fleiri brottfarir en í febrúarmánuði 2010. Erlendum gestum fjölgaði því um 12,6% í febrúarmánuði á milli ára.

Þetta kemur fram á vefsíðu Ferðamálastofu. Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í febrúar frá Bretlandi eða 30,8% af heildarfjölda. Næstfjölmennastir voru Bandaríkjamenn eða 12,7% af heildafjölda, síðan komu Norðmenn (7,9%), Danir (6,4%), Þjóðverjar (5,7%), Frakkar (5,5%) og Svíar (5,2%).

Ef litið er til einstakra markaðssvæða má sjá verulega fjölgun frá Bretlandi milli ára, N-Ameríku og þeim löndum Mið- og S- Evrópu sem talið er frá. Þannig fóru tæplega þúsund fleiri Bretar frá landinu í febrúar í ár en í febrúarmánuði í fyrra, um 800 fleiri N-Ameríkanar og um 600 fleiri gestir frá Mið- og S-Evrópu. Svipaður fjöldi Norðurlandabúa og gesta frá löndum innan og utan Evrópu sem eru flokkuð saman undir ,,Annað” fór úr landi í febrúarmánuði í ár og í fyrra.

Frá áramótun hafa 45 þúsund erlendir ferðamenn farið frá landinu sem er um 15 prósenta aukning frá árinu áður. Ríflega þriðjungsaukning (37,2%) hefur verið í brottförum frá N-Ameríku, fjórðungsaukning frá Mið-og Suður Evrópu, 13% aukning frá Norðurlöndunum og tæp 11% frá Bretlandi. Svipaður fjöldi hefur komið frá löndum sem flokkast undir ,,Annað”.

Umtalsvert fleiri Íslendingar eða 2.600 talsins fóru utan í febrúar í ár en í fyrra. Í ár fóru 19.600 Íslendingar utan en 17 þúsund árið áður. Aukningin nemur 15,3% á milli ára.

Frá áramótum hafa um 42 þúsund Íslendingar farið utan, 5.400 fleiri en á sama tímabili árið 2010 þegar tæplega 37 þúsund Íslendingar fóru utan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×