Viðskipti innlent

Fjölgað um tvo í stjórn Nýherja

Guðmundur Jóh. Jónsson, Hildur Dungal, Benedikt Jóhannesson, Marta Kristín Lárusdóttir, Árni Vilhjálmsson og Jafet S. Ólafsson.
Guðmundur Jóh. Jónsson, Hildur Dungal, Benedikt Jóhannesson, Marta Kristín Lárusdóttir, Árni Vilhjálmsson og Jafet S. Ólafsson.
Fjölgað var um tvo, úr þremur í fimm, í aðalstjórn Nýherja hf. á aðalfundi félagsins, sem haldinn var síðastliðinn föstudag.

Ný í aðalstjórn eru Jafet S. Ólafsson, framkvæmdastjóri hjá Veigari fjárfestingafélagi, og Hildur Dungal, lögfræðingur. Auk þeirra sitja Benedikt Jóhannesson, Árni Vilhjálmsson og Guðmundur Jóh. Jónsson í aðalstjórn félagsins. Þá var Marta Kristín Lárusdóttir, lektor í Tölvunarfræðideild við Háskólann í Reykjavík, sjálfkjörin varamaður í stjórn Nýherja hf.

Í tilkynningu segir að Benedikt Jóhannesson stjórnarformaður Nýherja hf. sagði í ræðu sinni á aðalfundi fagna því að tvær konur hefðu gefið kost á sér til starfa í stjórn, önnur sem aðalmaður og hin sem varamaður.

“Það er vel við hæfi að þetta beri upp á sama dag og 100 ár eru frá fæðingu Auðar Auðuns, fyrstu konunnar sem gegndi embætti borgarstjóra og ráðherra. Þetta verður í fyrsta sinn sem konur koma að stjórn félagsins, en vonandi verður þetta einnig til þess að efla hlut kvenna í stjórnunarstöðum í félaginu. Það er eindreginn vilji stjórnar að svo verði,” sagði Benedikt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×