Viðskipti innlent

Velta á millibankamarkaði sú mesta frá 2009

Tölur Seðlabankans um daglega veltu á millibankamarkaði með gjaldeyri nú í febrúar benda til þess að veltan í mánuðinum verði sú mesta í einum mánuði síðan í nóvember árið 2009.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að hér að sé sjálfsögðu tekin út þau áhrif sem aðgerðir Seðlabanka Íslands höfðu á veltuna í desember síðastliðnum, en þá keypti bankinn gjaldeyri fyrir 24,6 milljarða kr. af fjármálafyrirtækjum til þess að draga úr gjaldeyrismisvægi þeirra. Án þessara aðgerða var heildarveltan í desembermánuði 2.910 milljónum kr.

Frá 1. til og með 18. febrúar nemur heildarveltan á millibankamarkaði 3.721 milljónir kr. og nema viðskipti Seðlabankans 715 milljónum kr. þar af, eða sem jafngildir rétt tæpum fimmtungi af heildarveltunni. Eru viðskipti Seðlabankans jafnframt nokkuð minni hluti af heildarveltunni en að undanförnu.

Af þessu virðist ljóst að útflæði gjaldeyris hjá viðskiptabönkunum er nokkuð meira en sem nemur innflæði sem leiðir til þess að þeir hafa orðið að leita á millibankamarkað í mun meira mæli með kaup á gjaldeyri.

Þessi þróun sem hér er á undan lýst samræmist þróuninni á gengi krónunnar í mánuðinum. Nú stendur gengisvísitala krónunnar í 215,4 stigum en um síðustu mánaðamót var vísitalan 212,3 stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×