Viðskipti innlent

Landsbankinn tapaði í héraði og áfrýjar til Hæstaréttar

Landsbankinn hefur ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar dómi sem féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en þar féllst dómari á rök þrotabús Mótormax ehf að lán sem fyrirtækið tók hjá Landsbankanum væri ekki í erlendri mynt, heldur í íslenskum krónum með gengistryggingu við erlenda mynt. Bankinn taldi hinsvegar að umræddur samningur hafi falið í sér skuldbindingu í erlendri mynt.

„Landsbankinn telur óhjákvæmilegt að fá dóm Hæstaréttar Íslands um þetta ágreiningsefni og mun því kæra niðurstöðuna,“ segir í tilkynningu frá bankanum. Þar segir að málið sæti flýtimeðferð fyrir Hæstarétti og er endanlegrar niðurstöðu að vænta á næstu vikum.

„Endanlegt uppgjör Landsbankans fyrir árið 2010 liggur ekki fyrir og því ekki hægt að meta nákvæmlega áhrif þess á bankann staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur.  Ljóst er þó að ef öll erlend lán af þessum toga yrðu talin ólögmæt, yrðu neikvæð áhrif á eignastöðu bankans að hámarki um 16 milljarðar króna.“

Þá segir bankinn að í málinu sé fjallað um algengasta form lána Landsbankans í erlendri mynt til fyrirtækja „og þó þessi málalok hefðu umtalsverð áhrif, þá væri fjárhagsstaða bankans enn sterk,  eiginfjárhlutfall hans yrði áfram hátt og vel umfram það 16% lágmark sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×