Viðskipti innlent

Eignir REI seldar

Í dag var skrifað undir viljayfirlýsingu um kaup Nevada Geothermal Power (NGP) á öllum jarðhitaréttindum Iceland America Energy (IAE) í sunnanverðri Kaliforníu samkvæmt tilkynningu frá Orkuveitunnu.

Söluverðið er 4,15 milljónir bandaríkjadala.

Orkuveita Reykjavíkur, í gegnum dótturfélagið Reykjavik Energy Invest, á 77 prósent í IAE og eru réttindin helsta eign fyrirtækisins. Hinir nýju eigendur leggja kapp á að nýta reynslu og þekkingu sérfræðinga OR við uppbyggingu jarðhitanýtingar á svæðinu. Ekki verður um fjárfestingu í verkefnunum að ræða af hálfu OR eða dótturfélaga.

Jarðhitaréttindin sem um ræðir eru á svæðum kenndum við New Truckhaven, East Brawley og South Brawley. IAE var stofnað um kaup á réttindunum og var íslenski eignarhluturinn upphaflega í höndum Enex, en komst í eigu REI við uppskiptingu Enex í ársbyrjun 2009.

Kaupverðið er greitt með reiðufé en aðallega með hlutabréfum í NGP, sem skráð eru á markaði. Nevada Geothermal Power rekur eina virkjun í Nevada-fylki og á þar frekari vinnslurétt auk réttinda í Oregon. Fyrirtækið er skráð á verðbréfamarkaði vestanhafs. Stefnt er að því að ljúka samningum fyrir marslok.

Frá árinu 2008 hefur Reykjavik Energy Invest alfarið verið rekið innan Orkuveitu Reykjavíkur. Fyrirtækið á eignir í nokkrum erlendum orkuverkefnum og hefur verið leitast við að verja þau verðmæti sem í þeim felast með því að finna samstarfsaðila til að fjármagna þau og leiða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×