Viðskipti innlent

Sóknarfæri á sviði einkarekinnar heilbrigðisþjónustu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Steingrímur Ari Arason bendir á að sjúkratryggingalögin hafi verið sett í sama mánuði og bankahrunið varð. Mynd/ GVA.
Steingrímur Ari Arason bendir á að sjúkratryggingalögin hafi verið sett í sama mánuði og bankahrunið varð. Mynd/ GVA.
Sóknarfæri eru til þess að fjölga útboðum þegar samið er um heilbrigðisþjónustu á vegum hins opinbera, segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga. Í nýlegum sjúkratryggingalögum, sem sett voru í október 2008, var gert ráð fyrir að farið sé í útboð í ríkara mæli. Í lögunum er hvorutveggja heimilt þegar samið er um heilbrigðisþjónustu, að semja yfir borðið eða fara í útboð.

Læknavaktin er einkarekið fyrirtæki sem hefur rekið skipulagða vitjanaþjónustu fyrir sjúklinga utan dagvinnutíma. Fyrirtækið hefur starfað í um áttatíu ár, en upphaflega gerði Sjúkrasamlag Reykjavikur sameiginlegan samning við heimilislækna árið 1928. Fyrirtækið fær 239 milljónir króna á fjárlögum þessa árs, en samningur Sjúkratrygginga við fyrirtækið var ekki boðinn út. Þá eru jafnframt dæmi um þjónustu sem hið opinbera veitir nú en hægt væri að bjóða út.

Lögin samþykkt í sama mánuði og bankahrunið varð

Steingrímur Ari bendir á að sjúkratryggingalögin hafi verið samþykkt í sama mánuði og bankahrunið varð. Það hafi breytt stöðunni ansi mikið. „Við höfum í ljósi aðstæðna verið að reyna að halda hlutum gangandi og þjónustunni á floti. Þannig að í sjálfu sér hafa menn haft takmarkaða möguleika til að fara inn á nýjar brautir," segir Steingrímur Ari. Hann bendir samt á að sjúkrahótelsrekstur hafi verið boðinn út nýlega og gengið hafi verið frá samningum í framhaldi af því. „Við buðum út augasteinsaðgerðir sem var líka nýmæli. Þannig að við höfum aðeins farið inn á þessa braut varðandi þjónustuna, en kannski ekki í þeim mæli sem væntingar stóðu til," segir Steingrímur Ari.

Þá segir Steingrímur Ari að í mörgum tilvikum sé bara einn aðili sem geti veitt þjónustuna og þá þjóni litlum tilgangi að fara útboðsleiðina. „Það er auðvitað þannig að á mörgum sviðum er útboð enginn valkostur. Þannig að það er auðvitað þess vegna sem sérreglur gilda um læknisþjónustuna og heilbrigðisþjónustuna," segir Steingrímur Ari.

Stéttarfélög stundum með samningsumboðið

Þá bendir Steingrímur Ari á að félög sérgreinalækna og félög heilbrigðisstarfsmanna hafi í sumum tilfellum verið með samningsumboð fyrir þjónustuveitendurna sem verktaka. „Í þeim skilningi hefur samningsvaldi verið þjappað á einn aðila og í rauninni hafa viðsemjendur tekið sig saman þannig að forsendur samkeppni hafa ekki verið til staðar," segir Steingrímur Ari. Þetta eigi til dæmis við í tengslum við mál tannlækna. Í því tilfelli hafi formaður Tannlæknafélagsins sett það á oddinn að ekki væri verið að semja við einn lækni heldur allt félagið. Í því tilfelli séu ekki forsendur fyrir útboði.

Steingrímur Ari segir þó að menn sjái aukin færi á útboðum í læknisþjónustu. „Kaupendur og seljendur sjá sér hag í því fyrirkomulagi. Af því að með útboði, ef rétt er staðið að því, eru menn að gæta ákveðins jafnræðis og gefa fleirum kost á að veita þjónustu," segir Steingrímur Ari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×