Viðskipti innlent

Pálmi og Hannes búnir að skila yfirlýsingum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Pálmi Haraldsson og Hannes Smárason haf nú skilað yfirlýsingu til dómstóls í New York og því uppfyllt skilyrði sem voru sett þegar Glitnis-málinu var vísað frá. Reiði og gremja er í garð þeirra tveggja meðal annarra sem stefnt var í málinu vegna endurupptöku þess.

Dómarinn í Glitnis-málinu í New York vísaði því frá á þeirri forsendu að þeir hinir stefndu gæfu yfirlýsingar um að dómur í málinu á Íslandi væri aðfararhæfur í New York, þ.e að aðilar málsins féllust á að varnarþingið væri á Íslandi en að fullnusta mætti slíkan dóm fyrir dómstólum Vestanhafs.

Engir tímafrestir voru í ákvörðun dómarans en allir hinir stefndu skiluðu yfirlýsingum að undanskildum Hannesi Smárasyni og Pálma Haraldssyni. Slitastjórn Glitnis krafðist því endurupptöku málsins þar sem skilyrði frávísunar höfðu ekki verið uppfyllt að fullu, en skilyrðið var að allir myndu gefa slíka yfirlýsingu út.

Samkvæmt heimildum fréttastofunnar olli þetta mikilli gremju meðal þeirra sem skiluðu yfirlýsingum á réttum tíma. Litið væri svo á að allir hinir stefndu væri dregnir inn í málið á ný vegna klúður tveggja.

Hannes Smárason skilaði síðan yfirlýsingu í gær þar sem hann lýsir því yfir að hann andmæli ekki að dómur á hendur honum á Íslandi verði aðfararhæfur. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu skiluðu lögmenn Pálma Haraldssonar slíkri yfirlýsingu í dag. En þýðir það að frávísunin standi þar sem skilyrði hennar eru uppfyllt? Það er ekki víst.

Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, vildi t.d engu svara um það í samtali við fréttastofu í dag. Hún sagði að hún hefði ekki séð yfirlýsingar þeirra Pálma og Hannesar og að slitastjórnin þyrfti að ráðfæra sig við lögmenn sína í Bandaríkjunum um næstu skref.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×