Viðskipti innlent

Bakkavör í risavaxinni endurfjármögnun

Bakkavör hefur gefið út skuldabréfaflokk og fengið nýtt sambankalán upp á samtals um 730 milljónir punda, um 138,4 milljarða króna.

Fjallað er um málið á vefsíðu Viðskiptablaðsins þar sem vitnað er í heimasíðu lögmannastofunnar Shearman & Sterling LLP sem vann fyrir Bakkavör við endurfjármögnunina.

Féð verður meðal annars notað til að gera upp 650 milljóna punda sambankalán til 17 banka, meðal annars Royal Bank of Scotland (RBS) og Barclays.

Skuldabréfaflokkurinn, sem er upp á 350 milljónir punda, um 66,4 milljarða króna, er gefinn út af Bakkavör Finance. Skuldabréfin munu hafa jafna veðstöðu og sambankalánið. Flokkurinn er á gjalddaga 15. febrúar 2018. Sambankalánið er síðan upp á 380 milljónir punda, um 72 milljarða króna.

Bakkavör Group, móðurfélag Bakkavararsamstæðunnar, gerði nauðasamning í mars í fyrra. Samkvæmt nauðasamningnum á Bakkavör Group að greiða íslenskum kröfuhöfum sínum um 500 milljónir punda, um 94,8 milljarða króna, fram til ársins 2014, að því er segir á vefsíðu Viðskiptablaðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×