Viðskipti innlent

Áætlun um gjaldeyrishöft kynnt á næstu dögum

Seðlabankinn vinnur nú að áætlun um afnám hafta í samráði við efnahags- og viðskiptaráðuneytið og er ætlunin að kynna hana fyrir ríkisstjórninni fyrir mánaðamót. Verði hún samþykkt af ríkisstjórninni mun hún að líkindum verða birt opinberlega í kjölfarið.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.  Þar segir að um sé að ræða endurskoðun á áætluninni frá í ágúst 2009 og er ferlið við gerð áætlunarinnar nú svipað og þá var. Rétt er að undirstrika að í áætluninni sem kemur fram nú verður líkt og í áætluninni frá 2009 engar tímasetningar í haftaafnámi.

Nokkuð skiptar skoðanir hafa verið um hvort afnám hafta eigi að gerast hratt eða hægt. Hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn verið meðal þeirra aðila sem talað hefur fyrir hægfara ferli og áherslan verið á stöðugleika gjaldmiðilsins. Aðrir hafa talað um að afnámið þurfi að ganga hratt fyrir sig með þeim rökum m.a. að höftin séu mjög skaðleg og að lítið hald sé í þeim þegar af stað er farið við afnám þeirra en núverandi höft eru afar víðtæk.

Þegar opnað er fyrir aukna fjármagnsflutningi opnast einnig fleiri leiðir framhjá höftunum. Lítið er því í því fyrir stöðugleika myntarinnar að draga það ferli þegar það er byrjað á annað borð. Már nefndi hins vegar á fundinum í gær að fyrsta skrefið í afnámi hafta kunni að taka töluvert langan tíma og standa fram eftir yfirstandandi ári.

Áherslumunur hefur einnig verið á milli aðila hversu lagt skuli ganga við afnám hafta en nokkuð ljóst virðist vera að það frelsi sem var í fjármagnsflutningum fyrir hrun mun ekki verða aftur hér á landi í bráð a.m.k. Höft að ákveðnu marki verða því líklegast hluti af fyrirkomulagi gjaldeyrismála næstu árin. Má þar t.d. nefna að innlendum bönkum verður eflaust bannað um langa hríð að afla innlána erlendis með þeim hætti sem forverar þeirra gerðu.

Fleira verður eflaust þar sem hefta mun fjármagnsflæðið og skerðir stöðu innlendra fjármálastofnanna í samkeppni við erlenda keppinauta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×