Viðskipti innlent

Litlu munaði á lægstu boðum í viðgerð Steingrímsstöðvar

Steingrímsstöð. Mynd/ Landsvirkjun.
Steingrímsstöð. Mynd/ Landsvirkjun.
Fyrirtækið Verkvík-Sandtak ehf. í Hafnarfirði átti lægsta boð í viðgerðir á Steingrímsstöð, en tilboð voru opnuð í gær hjá Landsvirkjun. Verkvík-Sandtak bauð 168,5 milljónir króna, eða 88,6% af 190 milljóna króna kostnaðaráætlun. Verkið felst í viðgerð á árlokum Steingrímsstöðvar og steyptum mannvirkjum.

Afar litlu munaði á lægsta tilboði og því næsta, um 1,2 milljónum króna eða einungis 0,6%. Fyrirtækið Fasteignaviðhald ehf. á Álftanesi bauð 169,7 milljónir króna í verkið og þriðja lægsta boð kom frá Spennt ehf. í Reykjavík, upp á 169,8 milljónir króna. Fjögur önnur tilboð bárust en þau voru öll yfir kostnaðaráætlun.

Steingrímsstöð er yngst Sogsvirkjana, hóf raforkuframleiðslu árið 1959, og virkjar útfall Þingvallavatns með 20 metra fallhæð á leið Sogsins niður í Úlfljótsvatn, en vatnið er þar leitt í göngum í gegnum Dráttarhlíð. Uppsett afl hennar er 27 megavött.

 

 

 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×