Viðskipti innlent

Kaupþing yfirtók risavaxið lán Ólafs ári fyrir hrun

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ólafur Ólafsson
Ólafur Ólafsson
Kaupþing yfirtók risavaxið lán Ólafs Ólafssonar hjá amerískum banka ári fyrir hrun, en án þess hefðu hlutabréf Kaupþings lækkað mikið í verði. Á svipuðum tíma var bankinn að gera gjaldeyrissamning við Ólaf, sem nú krefst 115 milljarða króna frá þrotabúi Kaupþings vegna gjaldeyrissamningsins.

Egla dótturfélag Kjalars, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, fékk lán hjá bandaríska bankanum Citigroup gegn veði í hlutabréfum í Kaupþingi banka. Haustið 2007 fóru gjaldfellingarákvæði í lánasamningi hjá bandaríska bankanum að verða virk vegna lækkandi hlutabréfaverðs hjá Kaupþingi banka.

Félag Ólafs gat í krafti stöðu hans í hluthafahópi bankans fengið Kaupþing til að taka yfir lánið hjá bandaríska bankanum í lok árs 2007, en á þessum tíma voru hagsmunir bankans og Ólafs orðnir mjög samtvinnaðir. Bankinn vildi ekki með nokkrum hætti offramboð á bréfum bankans á markað með tilheyrandi lækkun þeirra.

Samkvæmt heimildum fréttastofu gerði Citigroup fyrst veðkall en síðan gjaldfelldi bankinn lánið. Þá tók Kaupþing lánið yfir í heild sinni og færði síðan hluta þess yfir á aðra banka og sparisjóði gegn góðum tryggingum. Hjörleifur Þór Jakobsson, forstjóri Kjalars, sagði í samtali við fréttastofu í dag að endurfjármögnun á láninu hjá Citigroup hafi verið að fullu lokið í mars 2008.

Stuttu áður, í janúar 2008, veitti fékk Kjalar gjaldeyrisskiptasamning í hjá bankanum upp á tugi milljarða króna. Fram kom í Viðskiptablaðinu að þessi samningur hafi síðan verið endurnýjaður í miðju bankahruni. Á grundvelli hans gerir Kjalar kröfu um 115 milljarða króna, en það er hagnaður félagsins á átta daga tímabili í miðju hruni.

Ef Kjalar vinnur málið skiptast eignir félagsins milli Glitnis og Eglu. Í yfirlýsingu sem Kjalar sendi frá sér segir að óháð niðurstöðu málsins sé ljóst að eigendur Kjalars muni aldrei fá krónu út úr félaginu. Hjörleifur Þór Jakobsson, forstjóri Kjalars, fullyrti í samtali við fréttastofu í dag að engin félög tengd Ólafi Ólafssyni ættu kröfur á Eglu og þar með ætti hann ekki lengur fjárhagslegra hagsmuna að gæta í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×