Viðskipti innlent

Bónusinn skipti víst máli - Hæstiréttur hafnaði Ríkharði

Ríkharður Daðason.
Ríkharður Daðason.
Hæstiréttur Íslands snéri dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem launakrafa Ríkharðs Daðasonar, var viðurkennd sem forgangskrafa í þrotabú Kaupþings.

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á það í desember á síðasta ári að launakrafa Ríkharðs Daðasonar, hjá Kaupþingi, væri forgangskrafa. Ríkharður krafðist þess að honum yrðu greiddar tæplega 27 milljónir króna vegna vangoldinna launa og launa á uppsagnafresti.

Grunnlaun Ríkharðs voru 450 þúsund krónur en hann gerði munnlegt samkomulag við framkvæmdastjóra markaðsviðskipta bankans um að heildarlaun hans yrðu 2,4 milljónir á mánuði.

Þannig átti Ríkharður að fá greiddan bónus til þess að brúa bilið.

Um þetta var deilt þar sem Kaupþing hélt því fram að bónusgreiðslur til starfsmanna hefðu nánast undantekningarlaust verið háðar því skilyrði að arðsemi eigin fjár bankans væri yfir 15% fyrstu sex mánuði ársins, og svo síðari sex mán­uði ársins. Jafnframt væru þær háðar mati á frammistöðu þess sviðs sem starfs­maður hafi starf­að á sem og frammistöðu viðkomandi starfsmanns á því tímabili.

Samn­ingar sem vikið hafi frá fyrrgreindum meginreglum hafi því verið algjör undan­tekning og þá vegna sérstakra aðstæðna; sem voru þær að bankinn átti í verulegum fjárhagsvandræðum árið 2008 sem varð til þess að hann féll að lokum í bankahruninu.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði gert samning við Ríkharð þar sem laun hans hafi átt að vera 2,4 milljónir á mánuði. Þá skiptir engu með bónusinn.

Héraðsdómur lækkaði hinsvegar launakröfu Ríkharðs og samþykkti að hann ætti 21 milljón króna forgangskröfu í þrotabú Kaupþings.

Þessu var Hæstiréttur ósammála og vildi meina að það væri ósannað, með staðfastlegri neitun Kaupþings, að samningar um bónus hefðu komist á.

Þá segir í niðurstöðu Hæstaréttar að ekki hafi náðst „15% arðsemi eigin fjár" Kaupþings á árinu 2008, sem samkvæmt starfskjarastefnu hans var frumskilyrði þess að kaupaukagreiðslur yrðu ákveðnar handa starfsmönnum.

Því hafnar Hæstiréttur alfarið kröfu Ríkharðs.


Tengdar fréttir

Bónusinn skipti engu máli - Ríkharður fær 21 milljón

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á að launakrafa Ríkharðs Daðasonar, hjá Kaupþingi, væri forgangskrafa. Ríkharður krafðist þess að honum yrðu greiddar tæplega 27 milljónir króna vegna vangoldinna launa og launa á uppsagnafresti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×