Viðskipti innlent

Telur að gengi krónunnar muni styrkjast

"Erfitt er að sjá fyrir sér að gengið veikist verulega á næstunni miðað við óbreyttar forsendur og frekar að það styrkist vegna innflæðis, ekki síst ef til koma verulegar framkvæmdir innanlands."

Þetta kemur fram í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa þar sem fjallað er um gengi krónunnar.

Gengi krónunnar var því sem næst óbreytt í síðustu viku en frá áramótum hefur krónan veikst um 3,7%.

Helstu myntir hafa hækkað í verði í krónum talið. Evra hefur hækkað um 4,2%, sterlingspund um 4,7% og bandaríkjadalur um 1,0%. Sænsk króna hefur hækkað mest, um 5,8%, en japanskt jen minnst um 0,2%.

Engar augljósar ástæður eru fyrir þessari veikingu, en mikill afgangur hefur verið af vöruviðskiptum og ströng gjaldeyrishöft við lýði. Helst hefur verið bent á að í upphafi árs hafi erlendir aðilar fært vaxtagreiðslur úr landi af innlendum eignum.

Einnig virðist vera um að ræða misvægi á milli inn- og útflæðis gjaldeyris hjá einstökum bönkum og því hafi þeir þurft að sækja á millibankamarkaðinn í auknum mæli. Þá má velta fyrir sér áhrifum af gjaldeyrisviðskiptum Seðlabanka Íslands, en hann hefur um skeið verði kaupandi gjaldeyris.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×