Viðskipti innlent

LV náði 3,4% raunávöxtun í fyrra

Nafnávöxtun Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LV) nam 6,1% árið 2010 sem jafngildir 3,4% hreinni raunávöxtun. Þetta er betri ávöxtun en árið  2009, en þá nam raunávöxtun sjóðsins 1,1%. Ávöxtun LV árið 2010 er því nær jöfn þeirri  ávöxtun og gert er ráð fyrir tryggingafræðilegu uppgjöri sjóðsins.

Í tilkynningu segir að þessi jákvæða afkoma verður til þess að lífeyrisréttindi sjóðfélaga verða ekki skert, en þau eru að fullu verðtryggð.

Eignir LV jukust  um 27 milljarða kr. á árinu og voru þær 310 milljarðar kr. í árslok 2010 samanborið við 283 milljarða kr. árið áður. Allir eignaflokkar sjóðsins skiluðu jákvæðri ávöxtun árið 2010 og er áhættudreifing safnsins góð og samsetning þess traust.

Þannig er um 30% af eignum sjóðsins í dreifðu safni erlendra verðbréfa, 28% í innlendum ríkistryggðum skuldabréfum, 12% í safni sjóðfélagalána, önnur skuldabréf eru samtals 13% af eignum  og 13% í bankainnstæðum. Innlend hlutabréfaeign jókst nokkuð á árinu og nemur nú um 4% af eignum sjóðsins. Það styrkir eignasafn sjóðsins að þriðjungur eigna er í dreifðu safni erlendra verðbréfa. Við gildandi gjaldeyrishöft eru möguleikar takmarkaðir að nýta slíka áhættudreifingu með eins skilvirkum hætti og æskilegt er. Aðgerðir sem styðja við afnám gjaldeyrishafta í náinni framtíð er því hagsmunamál sjóðfélaga sjóðsins.

Á síðasta ári varð sjóðurinn aðili að samkomulagi fjármálastofnana og lífeyrissjóða um úrræði fyrir skuldsett heimili og einstaklinga sem er mikilvægur liður í að koma til móts við skuldsett heimili og um leið að styrkja grundvöll lánasafnsins til lengri tíma litið. Færð hefur verið sérstök varúðarfærsla vegna sjóðfélagalána.

Virkir sjóðfélagar í LV eru rúmlega 32 þúsund en 47 þúsund sjóðfélagar greiða árlega  iðgjöld til sjóðsins sem nema um 16 milljörðum kr.  Um tíu þúsund sjóðfélagar fengu greiddan lífeyri frá LV á síðasta ári, alls 6,8 milljarða kr. Lífeyrissjóður verslunarmanna er mikilvægur í íslensku samfélagi því alls eiga um 128 þúsund sjóðfélaga réttindi í sjóðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×