Viðskipti innlent

Möguleiki á að skrá yfir tug félaga í Kauphöllina

Nú rúmlega tveimur árum eftir hrun er kannski vert að spá í það hvaða félög eru líkleg til að vera skráð á hlutabréfamarkaðinn hérna heima á næstu misserum eða árum. Greining Arion banka veltir þessu fyrir sér og nefnir yfir tug félaga og fyrirtækja.

Fjallað er um málið í Markaðspunktum greiningarinnar. Þar er birtur listi yfir möguleikana en greiningin segir að þeim lista sé alls ekki ætlað að vera tæmandi:

Hagar. Nýlega keypti hópur fjárfesta 34% hlut í félaginu ásamt kauprétti á 10% hlut til viðbótar. Stefnt er að því að skrá félagið síðar á þessu ári.

Fasteignafélög. Eitthvað hefur verið rætt um að skrá fasteignafélög í Kauphöllina og hefur eitt félag boðað komu sína, Fasteignafélag Íslands, þar sem vinna við undirbúning að skráningarferli er þegar hafin skv. tilkynningu frá Landsbankanum. Stærstu eignir félagsins verða Smáralind og Egilshöll.

Marorka. Marorka hefur þróað orkustjórnunarkerfi fyrir skip og eru áætlanir um að skrá fyrirtækið á First North hlutabréfamarkaðinn hér heima sem og í Osló.

Eimskip. Eimskip er að stórum hluta í eigu skilanefndar Landsbankans (40%) og bandarísks fjárfestingarfélags (Yucaipa með um 30% hlut) en ekkert hefur verið gefið upp um sölu eða skráningu á félaginu sem hefur gengið í gegnum mikla endurskipulagningu. Eimskip yrði jafnvel ekki skráð á markað fyrr en 2013 vegna skilyrðis Kauphallarinnar um þriggja ára rekstrarsögu.

Stoðir. Stoðir eiga TM, en þar að auki er stór hlutur í evrópska drykkjarvöruframleiðandanum Refresco í þeirra eigu. Stoðir eiga einnig hlutabréf í Royal Unibrew, hluti í Nordicom og Bayrock sem eru fasteignafélög, óbeinan hlut í Geysi Green Energy og hagsmuna að gæta í Iceland Foods. Stoðir eru svo aftur í eigu fjölda hluthafa, sem eru að mestu innlendar og erlendar fjármálastofnanir (kröfuhafar sem breyttu kröfum í hlutafé).

Stærstu eigendurnir eru Glitnir, NBI og Arion banki. Það eru sem sagt að miklu leyti erlendar eignir inn í Stoðum sem gætu verið áhugaverður kostur fyrir innlenda fjárfesta sem búa við gjaldeyrishöft – væru jafnvel í því ljósi reiðubúnir að borga eitthvað umfram fyrir þessar eignir. Þetta ætti ekki að vera svo óspennandi kostur fyrir nýju bankana þar sem gjaldeyrismisvægi þeirra hefur batnað, þó gæti skilanefnd Glitnis frekar haft áhuga að fá erlenda mynt til að eiga upp í kröfur þrotabúsins og NBI vill kannski frekar fá gjaldeyri til að geta greitt af skuldabréfinu margumrædda.

TM, VÍS og Sjóvá. Þessi þrjú tryggingarfyrirtæki voru með einum eða öðrum hætti skráð á markað hér á árum áður. Stoðir eiga 100% af hlutafé TM á meðan VÍS er í eigu Exista. Meirihluti í Sjóvá var seldur nýlega til SF1 sem er sjóður í eigu sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis.

Framtakssjóður Íslands:


Icelandic Group. Nýlega hafnaði stjórn sjóðsins tilboði fjárfestingarsjóðsins Triton um kaup á verksmiðjurekstri samstæðunnar. Í framhaldi var ákveðið að selja verksmiðjureksturinn í Bandaríkjunum og framleiðslustarfsemina í Kína í opnu söluferli. Það sem eftir stendur eru verksmiðjurnar í Evrópu, vörumerki félagsins og sölukerfið. En félagið gæti einmitt verið skráð á markað hér heima eftir að búið er að selja einingarnar í Bandaríkjunum og Kína.

Teymi. Félagið var afskráð úr Kauphöllinni árið 2008. Teymi hefur verið skipt upp í tvo hluta: fjarskipta- (Vodafone) og upplýsingatæknihluta (Skýrr). Skýrr hefur boðað komu sína á hlutabréfamarkað 2013 og yrði þá um tvíhliða skráningu að ræða – hér heima og svo aftur í Osló eða Stokkhólmi. Skýrr er skv. forstjóra félagsins það áttunda stærsta í upplýsingatæknigeiranum á Norðurlöndum. Einnig má sjá fyrir sér að Vodafone verði skráð á markað einhvern tímann í framtíðinni.

Plastprent og Húsasmiðjan? Plastprent og Húsasmiðjan voru áður skráð í Kauphöllina en þau voru bæði afskráð fyrir um 8-9 árum síðan.

Sjávarútvegsfyrirtæki. Einhver umræða hefur verið um skráningu sjávarútvegsfyrirtækja en það mun eflaust tefjast (ef af því verður yfirhöfuð) vegna pólitískrar óvissu.

Skipti. Ásamt því að vera móðurfélag Símans á félagið einnig erlend fyrirtæki. Skipti var áður skráð í Kauphöllina en sú viðkoma var einkar stutt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×