Viðskipti innlent

Kísilver greiðir hærra orkuverð en álverið á Grundartanga

Magma Energy, aðaleigandi HS Orku, segir að samningurinn um raforkusölu til kísilversins í Helguvík, sem undirritaður var í gær, skili fyrirtækinu hærra orkuverði en fæst fyrir raforku til álvers Norðuráls á Grundartanga.

Kísilverið mun kaupa alls 65 megavött, þar af 35 megavött af Landsvirkjun og 30 megavött af HS Orku, en orkuverð fæst ekki uppgefið. Landsvirkjun mætir raforkuþörfinni annarsvegar með orku sem þegar er til í kerfinu og hins vegar með smíði Búðarhálsvirkjunar.

HS Orka mætir sínum hluta með samningi, sem er að renna út við álver Norðuráls á Grundartanga, en við stækkun þess var á sínum tíma ákveðið að Orkuveita Reykjavíkur myndi taka hann yfir. Sá samningur er tengdur heimsmarkaðsverði á áli, en samningurinn við kísilverið miðar við fast verð. Í tilkynningu Magma Energy til kauphallarinnar í Kanada segir að orkuverðið í samningnum við kísilverið skili HS Orku hærra verði fyrir raforkuna, en samningurinn við álverið.

Þá er haft eftir forstjóra Magma, Ross Beaty, að fyrirtækið eigi nú í viðræðum við íslenska lífeyrissjóði um sölu á 20 til 25 prósenta hlut í HS Orku fyrir 55 til 68 milljónir dollara, eða 6,5 til 8 milljarða króna, eftir því hversu stór hlutur verður seldur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×