Viðskipti innlent

Sparifé í leit að arðsemi hækkar íbúðaverð

Nokkrar skýringar eru eflaust á því af hverju íbúðamarkaðurinn er aðeins að glæðast um þessar mundir. Fyrst má nefna að kaupmáttur hefur verið vaxandi og væntingar eru um að botni kreppunnar sé náð. Þá hefur sparifé verið að leita að arðsemi á þeim lokaða fjármagnsmarkaði sem hér er þar sem fjárfestingarkostirnir eru fáir.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um nýjustu mælingu Þjóðskrár Íslands á íbúðaverðvísitölu borgarinnar. Hún hækkaði um 0,8% í desember.

Í Morgunkorninu segir að eftirspurn sé að stórum hluta drifin af væntingum um þróun íbúða- og leiguverðs, en leiguverð hefur haldist nokkuð hátt undanfarið og íbúðaverð virðist vera a.m.k. nálægt botninum.

Í þriðja lagi hefur endurreikningi á lánum heimila miðað áfram og hefur það skýrt myndina í fjármálum heimilanna. Samhliða hefur losnað um bæði framboðs- og eftirspurnarstíflu á íbúðamarkaðinum sem kann að skýra aukna veltu nú að hluta. Þessu ferli endurreiknings er ekki lokið og mun hann halda áfram að marka íbúðamarkaðinn á næstunni.

Þrátt fyrir talsverða lækkun verðs íbúðarhúsnæðis undanfarin þrjú ár er íbúðaverð ekki lágt sögulega séð. Er raunverð íbúðarhúsnæðis þannig rétt við meðaltal síðustu tveggja áratuga og nafnverðið er svipað því sem það var yfir langtíma meðaltali og nú svipað því sem það var árið 2006 en þá sló það sögulegt met.

Verð íbúðarhúsnæðis í hlutfalli við laun er einnig rétt við langtímameðaltalið. Það er þannig að vissu marki sigur fyrir fjárhag skuldsettra heimila sem hafa sitt sparifé að stórum hluta í íbúðarhúsnæði að verðið hafi ekki lækkað meira núna í kreppunni, en dæmi eru um talsvert meiri lækkun íbúðarhúsnæðis í fjármálakreppum og má þar nefna kreppuna í Finnlandi í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar en þar lækkaði raunverði íbúðarhúsnæðis um 50%.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×