Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir líklega að yfirtaka Icelandair

Lífeyrissjóður verslunarmanna (LV) á orðið rúmlega 12% hlut í Icelandair. LV keypti 2,4% hlut í flugfélaginu samkvæmt flöggun í Kauphöllinni í dag. Þessi kaup eru athyglisverð í ljósi þess að Fjármálaeftirlitið er enn að kanna hvort sameiginlegur hlutur LV og Framtakssjóðs Íslands hafi ekki myndað yfirtökuskyldu í Icelandair.

Í frétt á visir.is þann 13. janúar s.l. segir að verið er að kanna hvort lífeyrissjóðirnir séu nú komnir með skyldu til að kaupa allt hlutafé í Icelandair og eignast þannig flugfélagið að fullu

„Í vikunni var því flaggað í kauphöllinni í tengslum við hlutafjárútboð Icelandair að Framtakssjóður Íslands ætti nú 29% í Icelandair. Því var einnig flaggað að Lífeyrissjóður verslunarmanna ætti orðið tæplega 10% í félaginu og eiga þeir því samanlagt tæp 40% af hlutaféinu. Yfirtökuskylda myndast við 33% eignarhlut.

Hér er um að ræða tengda aðila í þeim skilningi að Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti einstaki eigandi Framtakssjóðsins með tæplega 20% hlut. Sökum þessa sendi fréttastofan fyrirspurn um málið til Fjármálaeftirlitsins,“ segir í fréttinni.

Samkvæmt flöggun Kauphallarinnar hefur LV aukið hlut sinn úr 9,67% og í 12,07%.

Viðskiptablaðið greinir frá því að alls nam velta með bréf í Icelandair tæplega 1,3 milljörðum króna í dag. Viðskipti voru þrjátíu talsins. Lokagengi var 4,5 en við upphaf viðskipta var gengi bréfa 4,16 krónur á hlut. Samkvæmt því nemur fjárfesting lífeyrissjóðsins á bilinu 499,2 milljónum króna til 540 milljóna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×